Ég ræðst gegn blóðsugum

Ég er að lesa um blóðsugur.  Ég átti einu sinni nokkrar fræðibækur um þetta fyrirbæri og uppruna þeirra en þessar bækur eru löngu týndar eða komnar í eilífðralán.  Ég trúi samt ekki á tilvist blóðsugna.  Eða að fólk geti orðið ódauðlegt á því að drekka blóð úr hálsi annarra.  En ég veit samt að blóðsugur eru til.  Svona blóðsugur sem sjúga úr manni allan mátt með því að vera til.  Ég þekki þannig stúlku, hún vinnur hjá mér.  Og alltaf þegar hún þarf að tala við mig einslega, en það þarf hún oft, verður eins og allur vindur úr mér.  Ég sýg saman og fölna, verð andlaus og heimskur og samþykki allt sem hún biður mig um.  Og það eina sem hún biður mig alltaf um eru frí.  Fá frí hérna og þarna.  Fara til tannlæknis, í klippingu, í mæðraskoðun og hún er ekki einu sinni ólétt.  Bara návist hennar ein og sér fær mig til þess að verða eins og loftlaus blaðra.  Ég gefst alltaf upp á suðinu í henni og samþykki allt.  Ég mundi skilja það ef hún væri svona gothgella með aflitað hár, í svörtu átfitti með hringa og gadda út úr öllu andlitinu, en þetta er ósköp hversdagsleg kona, ég tæki ekki eftir henni á götu, mundi ekki tala við hana á bar.  Á síðustu stofnun sem ég stýrði var svipað vandamál, þar voru þær tvær sem dvöldu á tannlæknastofum, sjúkrahúsum eða erlendis öllum stundum.  Og ég lét þær valta yfir mig í marga mánuði þangað til ég skammaði aðra og sagði hinni upp.  En þá var skaðinn skeður.  Þess vegna les ég núna um vampírur.  Ég þarf að vita hvað hvítlauksát gerir til að vernda mig.  Hvar ég fæ tréstikur til  að negla í gegnum hjartað á þeim.  Hvort að ég verið að vera í svörtum jakkafötum og með herðaslá þegar ég framkvæmi upprætinguna?  Hvort ég þurfi að nota ættarnafn (gæti tekið upp móður minnar), þarf ég aðstoðarmann?  Verður að vera myrkur og regn?  Eða á ég kannski að reyna að finna glósurnar mínar úr stjórnunaráföngunum sem ég tók og gá hvort að þar séu ráð gegn börnum næturinnar?  En eitt er víst, eftir helgi mun ég ráðast gegn þessum forynjum og hafa sigur.  Það er þeirra blóð eða mitt.  Og mitt er alltof dýrmætt þessa stundina til þess að spilla því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband