23.2.2008 | 14:42
Lagið sem hún söng
Eftir að hafa snætt fullkomna máltíð og drukkið úr næstum þremur flöskum af víni, stóð hún á fætur og söng með sinni fallegu og blíðu rödd. Stóð í rökkrinu í stofunni og lifði sig inn í sönginn. Og ég sat í sófanum og horfði á hana í þessum stutta, þrönga, gula kjól. Dáðist að því hvernig líkaminn sveigðist með tónlistinni. Og eitt andartak hvarflaði það að mér að standa á fætur og ganga til hennar. Taka utan um andlit hennar, losa hnútinn í dökku hárinu þannig að það félli niður á bak hennar og kyssa hana. Faðma svo að mér og hvísla að núna yrði allt gott! En ég gerði það ekki. Það hefði ekki verið nokkur innistæða fyrir orðum mínum. Ég mun aldrei geta staði undir þeim væntingum sem hún gerir. Þess í stað kveikti ég mér í sígarettu, tók sopa af víni og hlustaði á rödd hennar. Svo kom hún og settist hjá mér, strauk niður andlit mitt og kyssti mig blíðlega á munninn. Ég stóð á fætur, opnaði þakgluggann og leit út í nóttina. ,,Ég get ekki séð tunglið héðan" sagði ég. ,,Þú og þín tungl" svaraði hún. Og ég vissi að hún var fúl. Við þögðum. ,, Á ég að opna meira vín"? Spurði ég loks. ,,Endilega" Svaraði hún. Og ég vissi það þá að einhvern daginn mun hún gera einhvern mann mjög hamingjusaman og þá verður vinátta okkar á enda og ég bara dökkur skuggi á vegg. Og ekkert sem mun minna á mig nema miðinn sem ég hengdi á ísskápinn hennar, undir stórum segli og mun ekki finnast strax. Og nóttin leið og undir morgun slagaði ég heim í leit að stjörnum eða tungli og með samviskubit yfir því sem ég skrifaði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.