23.2.2008 | 18:45
Sjáið hommann!
Þegar ég gekk framhjá Hótel Borg áðan tók ég eftir því að hópur miðaldra karlmanna (þeir voru sennilega á mínum aldri en feitir, ljótir með hverfandi hár) stóð þar fyrir utan og reyktu. Um leið og ég gekk hjá gólaði einn þeirra og benti á mig: sjáið hommann, mar! Passið ykkur að snúa ekki að honum rassinum! Mér varð svo brugðið að ég stoppaði og leit á manninn og spurði hvort hann ætti við mig? Þú veist það best sjálfur sagði hann og hló og hópurinn með honum. Digurbarkalegum þöngulhausa hlátri. Mér fannst mjög skrítið að þeir álitu mig homma? Ég sé ekkert í fari mínu sem bendir til þess að þar fari maður hýr og kátur. Og ekki var ég hommalega klæddur, í svörtum gallabuxum, samlitum jakka og skyrtu og í kúrekastígvélum. Mjög karlmannlegt, eiginlega leiðinlega eintóna og glyslaust. Ég hef aldrei til dæmis þekkt homma sem hefur gengið svartklæddur. Hommarnir sem ég þekki velja liti og glamúr. Og varla er hárið á mér svona hommalegt? Ljósbrúnn lubbi ofan í svört og þykk gleraugu? Ætli ég dilli rassinum þegar ég geng?
Leiðinlegast við þessar aðdróttanir fannst mér samt fordómarnir í þessum körlum. Menn á miðjum fertugsaldrinum sem ennþá halda að hommar stökkvi á alla rassa og setji í þá? Og að samkynhneigðir séu eitthvað hættulegir? Helvítis fordómar hjá virðulegum körlum í jakkafötum. Mönnum sem hafa eflaust völd og áhrif? Þótt að gáfnafar þeirra benti ekki beint til þess við fyrstu viðkynningu. Ég sé eftir því að hafa ekki sagst vera hýr og kátur og spyrja hvort að þeir vildu ekki bara bjóða mér með sér í mat? Undir borðum gæti ég svo frætt þá um allan minn öfugugga hátt!
Ég ætla að líta á það sem hrós að ég hafi verið kallaður hommi. Þá er eitthvað við mig sem vekur eftirtekt kynbræðra minna. Og einhver þeirra er örugglega leyni hommi eða bisexjúal og hugsar um mig á meðan hann fær það inni á klósetti meðan eiginkonan hans eldar. Ef hann bara vissi hvað ég er skelfilega venjulegur. Honum mundi sennilega ekki standa til stráka aftur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.