Fyrir sjöhundruð árum

Fyrir sjöhundruð árum eða haustið 1990 álpaðist ég á tónleika í Tunglinu sáluga (en þaðan á ég margar fagrar minningar) með enskri hljómsveit sem aldrei náði neinni frægð og hét Band of holy joy.  Flestum sem ég þekki og ég hef leyft að heyra í þessari sveit (átti tvær plötur á vínyl, mjög rispaðar í dag) verða hissa og hlaupa svo inn á klósett til þess að æla.  Engum þykir þessi sveit skemmtileg nema mér.  Mér finnst hún æði.  Sérstaklega af því að hún varð aldrei fræg og er löngu hætt.  Svo er útlit sveitarmeðlima ekki að gera neitt sérstaklega mikið fyrir þá.  En í mínum huga eru þeir og verða alltaf einir af þeim stóru!  Kannski af því að þetta voru fyrstu tónleikar sem ég fór á og gat drukkið mig út af kortinu á?  Og ég man að ég fór í sleik við rauðhærða stelpu með mikið sítt hár.  Síðar áttu leiðir okkar eftir að liggja saman í framhaldsskóla og við verða ágætir vinir.  Henni þótti ég alltaf hálfgerður hálfviti.  Ég hitti hana fyrir nokkrum vikum á Ölstofunni.  H'un sagði að ég liti ennþá út fyrir að vera átján, ég sagði að hún liti út fyrir að vera fimmtug.  Henni þótti vænt um það að ég væri ennþá ósvífinn.  Hún bað mig um símanúmerið hjá mér, vildi hitta mig til að tala um gamla og löngu liðna tíma.  Ég sagðist vera búinn að gleyma öllu, það væri ekki til neins að ræða við mig um það sem væri liðið.  Fólk kæmi og færi og það væri ástæða fyrir því að leiðir fólks skildu.  Henni fannst ég sama fíflið og fyrir átján árum.  Ég var nokkuð sammála því.  Eftir þessu myndbandi að dæma er nokkurn veginn eins komið fyrir þessari ágætu hljómsveit (myndband frá sorglegu kommbakki 2003) og mér.  Allur þokki horfinn og bara flatur bjór í krús og dægrastyttingin er sú að rífa kjaft við landeyður á barnum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kreppumaður

Ég sé ekki myndbandið, vonandi er það ekki dottið út, þetta er óþolandi lag!

Kreppumaður, 24.2.2008 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband