Heimurinn verður leiðinlegri og leiðinlegri

Þar sem ég er með heppnari mönnum, þá einhverja hluta vegna, næ ég nokkrum sjónvarpsrásum frítt.  Ég skil ekkert í því og ekki borga ég fyrir þær og á hverju kvöldi þegar ég kveiki á imbakassanum verð ég jafn hissa, þær eru þarna ennþá.  Ég get reyndar ekki sagt að þetta séu merkilegar stöðvar.  National Geographic og Discovery virðast bara senda út þætti um það hvernig á að lifa af flugslys og gera upp gamla bíla.  Og um Reality Tv treysti ég mér ekki að fjalla, ógrátandi.  Samt sem áður kveiki ég oft á þessum stöðvum, ef svo ólíklega vildi til að þær mundu sýna eitthvað sem mundi fræða mig eða í það minnsta skemmta.  Það næsta sem hefur komist því var röð þátt (ég sá tvo) sem fjölluðu um það að afsanna eina og aðra þjóðtrú.  Einn þáttur fór í það að merkir sérfræðingar héldu lærðar ræður um það að Loch Ness skrímslið væri ekki til, hefði aldrei verið til og það væri heimska að halda að risaeðla gæti lifað og hvað þá falist í köldu fjallavatni.  Auðvitað vita allir sem eru með sæmilega meðalgreind að skrímsli eru ekki til.  Nema bara mennsk!  Og að það er ekki nóg æti í fjallavatni fyrir dínósár.  En hvað með hina sem hafa gaman af því að trúa því að heimurinn sé furðulegri og dularfyllri en hann er?  Af hverju var verið að ræna frá þeim ánægjunni?  Þórbergur hefði brostið í grát hefði einhver sannað það fyrir honum með vísindalegum hætti að engir nykrar séu eða hafi verið til! 

Í öðrum þætti var svo ráðist gegn draugum.  Nokkrir frægir (erlendir) miðlar afhjúpaðir sem loddarar og sýnt hvernig hægt er að magna upp draugagang í gömlum húsum með einföldum sálfræði brellum.  Mér leiddist þessi þáttur.  Hann minnti mig á þættina sem voru á Stöð2 um manninn sem ferðaðist um Ameríku og rak út drauga sem höfðu hreiðrað um sig á hótelum.  Allt voðalega heimskulegt.  Og auðvitað eru draugar ekki til.  Þeir eru bara paranoja og massahyrstería sem greip fólk fyrr á öldum þegar hús voru illa upplýst og brakaði í hverjum vegg og hverri hjör.  En fullt af fólki trúir á drauga og setur þá í samband við framhaldslíf.  Verður ánægt ef hauslaus móri verður á vegi þeirra, því að hann er sönnun fyrir hinu eilífa.  Ég trúði staðfast á drauga þegar ég var strákur.  Og mundi gjarna vilja trúa á þá í dag.  Þá mundi vindurinn í þakskegginu og marrið í stofuglugganum hárin til þess að rísa á bakinu á mér af hræðslu.  En núna hafa vísindin afsannað tilvist alls í eitt skipti fyrir öll!  Ekkert er til sem ekki sést eða hægt er að snerta á.

Ég ætla ekki að horfa á þáttinn þegar þeir afsanna tilvist geimvera.  Ég verð að fá að trúa á eitthvað skrítið, halda í einhverja sérviskulega von um það að heimurinn sé ekki eins einfaldur og leiðinlegur og hann er!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband