25.2.2008 | 16:21
Að sofa í tólf ár
Hvað getur maður sagt eftir dag í vinnunni þegar maður hefur ekkert afrekað og eiginlega haft það á tilfinningunni að maður sé frekar fyrir fólki en til nokkurs gagns? Mér dettur helst í hug orðið útbrunninn! En ég ætla að skella skuldinni á gauf fram eftir nóttu yfir bók. Ég er orðinn óttalegur nátthrafn núna í seinni tíð, sef aldrei meira en fimm tíma á virkum dögum. Samt er ég ekki að gera neitt merkilegt, bara að gaufast yfir sjálfum mér. Nema auðvitað þegar ég er plataður (gott orð yfir það að vera ístöðulaus) á barinn. Kannski er þetta ótti vegna þess að þegar maður er sextugur hefur maður eytt tuttugu árum í rúminu? Mér finnst það alltof mikill tími í svefn. Einn þriðji af ævinni. Þá hef ég sofið í tólf ár miðað við daginn í dag. Það er rosalega mikið af súrealískum draumum sem meika ekki sens og eru hæpin afþreying. Ég vildi að maður kæmist upp með það að sofa bara í svona 4-5 tíma á sólahring en samt halda sér frekar skýrum. En því miður, þessi líkami er vél sem þarf að huga að, svo að hún verði ekki eins og bíldrusla sem búið er að aka 50.þús kílómetra án smurningar og annars viðhalds. Þykkur reykur og brunalykt. Kannski reyni ég að sofna á kristilegum tíma í kvöld?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.