29.2.2008 | 17:54
Kæra e!
Í desember bauðst mér það starf sem ég gegni í dag og vegna velvilja fyrrum yfirmanns fékk ég að stökkva á það tafalaust. Bæði voru launin nærri því tvöföld miðað við það sem ég hafði, auk þess sem ég var búinn að gera allt á þeirri stofnun sem ég gat gert. Ekkert eftir nema að endurtaka sig. En þar sem brotthvarf mitt bar við með mjög skjótum hætti náði ég ekki að kveðja alla eins og ég vildi. Lofaði ég meðal annars konu einni, sanntrúuðum kaþólikka 20 árum eldri en ég, að senda henni mail til þess að skemmta henni með því bulli sem hún var vön að hryti af mínum vörum í okkar sameiginlega hádegismat.
Ég byrjaði á þessum maili í lok desember. Og hann hófst á orðunum: kæra e! Eins og ég væri að fara að skrifa því ágæta eiturlyfi bréf og þakka fyrir okkar kynni. Og þeim nóttum sem ég hef setið úti í horni og strokið sjálfum mér eða séð skæra liti eða dansað eins og tíu baksviðsöngvarar í júróvisíon! Og bréfið hófst. Og lengdist. Og varð að einhverri þráhyggju. Á hverjum degi skrifaði ég svona 2-5 blaðsíður og áður en ég vissi var ég farinn að rekja, þó ekki beint, heldur hlaupið til og frá í tíma, harmsögu ævi minnar. Öll mín vonbrigði, axarsköft og almenn afglöp. Og allt fært í stílinn til þess að hrella þessa sanntrúuðu og góðhjörtu konu. Og ég var farinn að fá það á samviskuna að vera að stela Bréfi til Láru, án þess að hafa í mínu bréfi pólitík eða árásir á kirkjuna. Ég vildi forðast það þar sem þessi kona þiggur sakramentið reglulega frá Séra Jurgen. Auk þess læddi ég í þetta bréf frásögnum sem aldrei hafa gerst nema í huga mínum, nokkrum hvítum lygum og sögum af því sem ég get ímyndað mér að fólk sem ég þekki gæti hafa tekið upp á. Þá var ég óspar á lýrískar og myndrænar kynlífslýsingar. Því að það ber huga mínum og geðheilsu fagurt vitni að sitja heima, drekkandi rauðvín og skrifa konu á sextugs aldri lýsingar á því þegar ég missti sveindóminn, þegar ég fór heim með ónefndri myndlistarkonu (sem við bæði þekkjum), þegar ég var fórnarlamb lasta annarra þekktrar konu. Þá laug ég upp á mig hörmulegri barnæsku og þrælkunarvinnu í sveit. Ég held að ég hafi sofið til tíu á morgnanna þessi sumur sem ég var skikkaður til þess að vera úti á landi, innann um landadrekkandi búkarla (sem fylltu mig reglulega og höfðu gaman af) og sískítandi fjórfætlinga.
Núna er þetta bréf næstum hundrað blaðsíður og ennþá ósent. Og ég á bara eftir að ljúga upp á mig nokkrum sögum í viðbót áður en ég slæ botn í það. Og sendi konu greyinu til hrellingar. Kannski þá get ég snúið mér að næsta verkefni sem býður mín í skriftum? Þráhyggjan verður þá liðin hjá. Þessi þráhyggja að ljúga að miðaldra konum og gera mig hlægilegan í augum umheimsins. Af hverju gat ég ekki bara fæðst með fetish fyrir kvenmannsklæðum?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.