29.2.2008 | 18:06
Ég er norn!
Fyrir meira en áratug vann ég á ónefndum fjölmiðli og tók þá viðtal við konu, örlítið eldri en ég var þá, sem hafði fyrirsögnina: ég er norn! Í viðtalinu (sem var sem betur fer stutt) sagði hún frá því þegar hún var í nornaskóla í Englandi og lærði að galdra. Taldi hún sig búa yfir krafti til að brugga seiði sem gætu gert karlmenn vitlausa í hana. Viðurkenndi hún að hafa lífsviðurværi sitt á því að galdra til sín menn sem veittu vel. Ég trúði varla orði af því sem hún sagði en hlustaði en glósaði allt samviskusamlega niður (hafði heyrt að bestu blaðamenn í heimi notuðu ekki diktafón, kannski þess vegna var ég ekki langlífur í starfi? Allt skolaðist til í minninu.) Síðar rakst ég oft á þessa konu á börum þar sem hún bar í mislangdrukkna ógæfumenn bjór. Sem er sennilega sá eilífi nornaseiður sem konur voru brenndar á báli fyrir að byrla mönnum fyrr á öldum. Eftir óminni og fýlu eiginkvenna urðu þessir höfðingjar að útskýra bólfarir sínar með annarri konu á einhvern dramatískari hátt en það að stundar firring og almenn gredda í kjölfar ofurölvunar hafi ráðir framhjáhaldinu.
Síðast þegar ég sá þessa ,,norn" hafði útlitið fölnað og eflaust var drykkurinn sem hún bar í menn orðinn minna göróttur, því að hún bað mig um að splæsa á sig einum vodka í vatn og minnti mig á þetta viðtal sem ég tók og var fyrir löngu búinn að gleyma.
![]() |
Síðustu nornirnar náðaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.