Þegar sveindómurinn fauk

Ég man það ennþá að árið 1986 spilaði norska hljómsveitin a-ha tvisvar í Laugardalshöll og við vinirnir fórum á báða tónleikana.  Okkur fannst þetta kjörið tækifæri til þess að prófa að drekka í fyrsta sinn vodka og dansa í fjölmenninu og kannski, kannski kynnast stelpum.  Og á fyrri tónleikunum vorum við háttvísir á okkar fyrsta kendirí og drukkum sem nemur þriðjung af pela blandaðan í kók.  Við tókum myndir af hljómsveitinni og gengum um á meðal fimmþúsundanna og sögðum hæ við stelpur.  Undir lok tónleikanna hitti ég stúlku í næsta skóla við okkar.  Henni fannst ég sætur.  ég tróð tungunni upp í hana af offorsi.  Við kvöddumst með gefnu loforði um að hittast aftur næsta kvöld.  Þá drakk ég afganginn af pelanum. Skeytti engu um a-ha og eigraði eins og soltinn úlfur í leit að bráð þangað til ég fann stúlkuna.  Og við deildum leigubíl heim.  Og í mínu einbreiða rúmi gerðum við hluti sem ég kunni ekki að meta fyrr en mörgum árum síðar þegar ég var orðinn fullorðinn.  Og þegar við höfðum lokið okkur af spurði ég hana hvort að hún þyrfti ekki að fara?  Og hún týndi á sig spjarirnar í þögn og ég fylgdi henni til dyra og þar snéri hún sér við og spurði:  Hvert er númerið hérna?  Ég sagði, í dyragættinni á risastóru einbýlishúsi, við erum ekki með síma og lokaði hurðinni.  Og þar með hófst saga mín.  Sem aumingja sem hunsar tilfinningar, sem hunsar allt nema kodda og sænga og þá friðþægingu sem draumar bjóða.  Og það er leiðinleg saga sem verður ekki rakin lengra í kvöld.  Ljúkum þessu á a-ha sem með þessu myndbandi (annars mundi ég ekki birta það) líta út eins og hljómsveit frá Ísafirði sem hefur fengið breikþrú á aldrei fór ég suður og gert myndband á lélega vhs-tökuvél.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Henný Moritz

Hehe, en falleg saga.... allavega fallegri en mín "afmeyjunar" saga!

Kristín Henný Moritz, 1.3.2008 kl. 01:07

2 Smámynd: Kreppumaður

Svona sögur búa til bitra menn og ennþá bitrari konur!

Kreppumaður, 1.3.2008 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband