1.3.2008 | 20:48
Að fiska í drullugum poll
Hringdi í módelið sem ég hitti í gær. Hún var hrokafyllri en ég í símanum og ég hafði það á tilfinningunni að hún væri að pósa fyrir framan spegilinn á meðan hún talaði við mig og mundi frekar fara í óþarfa fitusog en á stefnumót með mér. Enda komum við okkur saman um það að ef svo færi að leiðir okkar lægju aftur saman þá mundi ég bara kinka til hennar kurteisilega kolli. Ekkert meira. Og núna líður mér ekki bara gömlum og úldnum, heldur líka með þessa nagandi höfnunartilfinningu. Fyrir ekki svo mörgum árum síðan hefði mér verið slétt sama. Þessi stelpa hefði bara verið ein af mörgum sem hefði hafnað mér og ég hefði huggað mig við það að sjórinn væri víðáttumikill og i honum margar fiskitorfur. En núna, þegar aldurinn færist yfir mig, hægt og hægt, eins og regndropi að leka niður rúðu, þá hefur mér skilist að ég er að fiska í polli sem er ekki bara gruggugur, heldur má ég teljast heppinn ef ég veiði gamalt stígvél eða hjólbarða af sokknum og ryðguðum Opel. Ég ætla undir sæng að skæla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.