3.3.2008 | 02:55
Barferð
Ég sem ætlaði að drekka einn á myrkum bar í kvöld en endaði með því að hanga með félaga mínum sem er poppstjarna (ekki það að ég þekki þær ekki margar, var meira að segja giftur einni eða eitthvað) og við lágum fram á barborðið eins og við værum að deyja. Svartklæddir lubbar á leiðinni til glötunar og töluðum um það hvað það var gaman að vera 25 ára fyrir tíu árum. Þegar eiturlyf voru næstum ókeypis, þegar stelpur biðu í röðum eftir því að sofa hjá okkur. Eða þannig. Kannski voru þetta ekki langar raðir en í minningunni voru þær það. Og núna eyddum við sunnudagskvöldinu á fámennum bar, drukknir, fráskildir, einmana, leiðir...
Og rifjuðum upp gamlar minningar og lög sem minntu okkur á glataða tíma sem aldrei koma aftur. Og við skáluðum fyrir ferjumanninum sem bíður okkar. Og þeirri ferð sem við munum brátt halda í. Þessari ferð sem er endirinn á öllu og upphafið á einhverju nýju. Og okkur fannst við vera gamlir og þreyttir og næstum dauðir og félagi minn sagði á tveggja mínútna fresti: Þú ert besti vinur minn! Og ég vissi að hann meinti það ekki. Og við pöntuðum mikið af viskí og koníaki og bjór og vodka og stóðum loksins fyrir utan barinn og félagi minn (sem hefur mjög góða rödd) söng: and if you look very hard/behind the lines upon their face you may see where you are heading/ and its such a lonely place...
Og við þögðum. Og við stóðum fyrir utan barinn og við störðum niður á támjóa skó okkar og þröngu gallabuxurnar og við vissum, án þess að segja það, að við vorum orðnir of gamlir, við vorum orðnir eitthvað meira og eldra en táningarnir sem fyrir 15 árum sátum úti í garði á Þórsgötunni og létu sig dreyma um konur og vín og frægð og frama. Og við spörkuðum í ósýnilega steina. Og ég sagði: góða nótt, hringi í þig eftir viku. Og gekk niður Laugaveginn, því að ég vildi koma mér, ekki af því að ég hafði ekki gaman af félaga mínum. Heldur vegna þess að konan með hundsaugun sem eltir mig allar helgar var inni á barnum og ég vildi ekki að hún kæmi út og sæi mig svona berskjaldaðann og auðvelda bráð á sunnudegi. Ég er ekki betri en það.
Þótt að ég ætti auðvitað að þakka fyrir það að stúlka sem er 13 árum yngri en ég og mjög sæt líti mig hýru auga. En maður er alltaf vanþakklátur. Það er þess vegna sem maður situr á bar með útbrunnum poppstjörnum og drekkur á sunnudögum og vonar að mánudagurinn renni aldrei upp. Að heimurinn standi í stað í nokkra tíma og veruleikinn hætti við það að banka á dyrnar. Að veruleikinn sniðgangi mann einn dag. Að maður geti gleymt því hver maður er einn dag. Og hvert maður stefnir.
Athugasemdir
Sko.. þar sem ég virðist vera orðin fastagestur á síðunni þinni þá er eins gott að ég kommenti hérna líka....:)
Í fyrsta lagi; þá er bara eitt sem mér leiðist við að lesa færslurnar þínar... Það er þetta sem er næsti bær við "namedropping" til að upphefja sjálfan sig. Færslurnar þínar, skrifaðar af nafnlausum manni út í bæ sem er glimmrandi penni og skemmtilegur pælari, standa algjörlega flottar og fínar án þess að þú sért að tala um módelin, popparana, rokkarana og allt þetta fólk sem þú vilt láta líta út fyrir að vera hrikalega hip að þekkja....
Í öðru lagi; ertu alveg "stökk" með þessa hundsaugna-píu! Það slær engin stelpa gæja utan undir og lætur hann eiga sig eftir það! Nú fyrst færðu ekki frið!
Í þriðja lagi; þú ert í tilvistarkreppu sem kemur til með að vara þangað til þú fattar að það er allt miklu skemmtilegra þegar maður er þrjátíuogeitthvað heldur en þegar maður er tuttuguogeitthvað!!
Heiða B. Heiðars, 3.3.2008 kl. 03:23
Þú kætir mig. Mér tókst að svekkja einhvern án þess að vera William Shatner að syngja og þá er mikið sagt!!!!
Kreppumaður, 3.3.2008 kl. 04:10
Og nafnleysið er bara vegna vinnunnar. Um leið og ég skipti um starf blogga ég undir nafni og mynd. En ég vil ekki vera maðurinn sem var rekinn fyrir að blogga um dóp og drykkju. Það væri slæmt fyrir ferilinn.
Kreppumaður, 3.3.2008 kl. 04:12
Þegar ég fór að sjá vinkonur dóttur minnar á barnum, þá ákvað eg að draga mig í hlé og endurraða frímerkjasafninu...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 3.3.2008 kl. 07:30
Skil þig. Hef lent í því að sjá svona ungviði sem ég hef kennt eða eitthvað. Það er óhugnarlegt.
Kreppumaður, 3.3.2008 kl. 11:48
Hvernig gæti ég verið svekkt... ég sem skemmti mér þvílíkt við að lesa bloggin þín!! Kem aftur og aftur og..... En ég get ekki ausið þig lofi endalaust!! Verður að vera eitthvað jafnvægi í þessu :)
Heiða B. Heiðars, 3.3.2008 kl. 13:10
Auðvitað það verður að ríkja austurlenskt jafnvægi í þessum heimi. Enginn má við því að heyra bara góða hluti um sig. Það er þess vegna sem ömmur eru til. Þegar mér gengur of vel í lífinu, þá heimsæki ég ömmu mína og hún skammar mig aftur niður á jörðina. Gott með að hún sendi mig ekki líka reglulega í skammarkrókinn?
Kreppumaður, 3.3.2008 kl. 14:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.