3.3.2008 | 19:12
Ég ætla að ganga mér til geggjunar
Ég er eitthvað hálf down núna. Dauðsföll hafa alltaf tilhneigingu til þess að ræna mann smá orku og koma huganum á hreyfingu. En það eru yfirleitt ekki uppbyggilegar hugsanir. Svo ég beitti mig hörðu, þessi munkasvipa mín sem er tiltekt og þrif. Það er ekkert eins róandi í mínum huga og það að strauja eða skúra. Minnisstæðasti afmælisdagurinn minn var þegar ég var 29 ára og eyddi kvöldinu í það að drekka bjór, strauja gardínur og hlusta á tónlist. Held að það hafi bara verið skemmtilegasta afmæliskvöld sem ég hef átt. Og partýið daginn eftir var mjög vel heppnað. Eða svo til. Einhverja hluta vegna voru flestir gestirnir mannfræðingar? Stundum sniðugar þessar tilviljanir sem stjórna lífi okkar. Og einn vinur minn veiktist af magaverk og var svo illa haldinn að það þurfti að hátta hann upp í rúm. Ég hafði gleymt tilvist hans og veikindum þegar ég kom heim um nóttina og kveikti ljósin í herberginu. Þá lá hann í útældu rúmi. Mér var ekki skemmt.
Það dreifir huganum að blogga. En ég get ekki samt hugsað mér að sitja við það í allt kvöld. Ég er að hugsa um að fara í langan göngutúr. Klæða mig vel og koma ekki heim aftur fyrr en ég er orðinn blár á nefinu og hættur að finna fyrir tám og fingrum. Reyndar þegar ég fer í langa göngutúra sem ég hef ekki gert mikið af síðustu mánuði sökum slabbs og færðar, fæ ég alltaf bestu hugmyndirnar mínar. Og þær geggjuðustu. Sem betur fer þá gleymi ég þeim flestum. Því að það væri skelfilegt ef ég mundi framkvæma allt sem mér dettur í hug? Það er til dæmis alveg ótrúlegt hvað jafn lofthræddur maður og ég hef klifrað upp marga brunastiga um nætur. Og ennþá ekki fallið til jarðar. Þótt að ég hrasi samt dagsdaglega með jöfnu millibili. Það hefur eitthvað með lappirnar að gera. Og heilann.
Ég ætla að byrja á því að borða. Svo er ég farinn. Kem aftur seint í kvöld þegar ég er búinn að ganga mér til geggjunar. Ég ætla samt ekki að fá útrás fyrir þær hugmyndir hér á blogginu. Mér hefur nefnilega dottið eitt í hug. Sem eflaust á eftir að reita einhverja til reiði. Stundum er ég alveg eins og Láki jarðálfur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.