4.3.2008 | 15:13
Ástarsögu guðinn ég
Ég hef nokkrum sinnum heyrt það að ég sé nánast tilfinningalega bæklaður. Eigi erfitt með að vera í takt við eigin tilfinningar, eigi erfitt með að skynja tilfinningar annarra. Ég geti ekki upplifað tilfinningar nema í gegnum tónlist, bækur, leikrit, kvikmyndir...
Ég er því eflaust gott dæmi um mann sem getur ekki látið suma hluti ganga upp í lífinu en gæti hæglega látið þá ganga upp í listum. Ég hefði því átt að verða rithöfundur og skrifa ástasögur. Engar spítalasögur í kiljum, heldur þykkar og mergjaðar ástarsögur um dapurleg örlög. Fýkur yfir hæðir. Bækur um fólk sem þarf að velja á milli ástarinnar og þess að lifa. Og fórnar ástinni fyrir langt og innantómt líf. Og sjálfur mundi ég svo lifa einangruðu lífi. Huldumaður í íbúð í miðbænum sem aldrei færi út á meðal fólks. Sæti bara og skrifaði. Um eitthvað sem væri honum ómögulegt að upplifa sjálfum.
Þetta hefði orðið fínt líf. En ég kaus að velja það ekki. Eitthvað sem heitir leti spilar þar stórann part í það val. Og svo hitt að ég mundi aldrei nenna að skrifa ástarsögur. Eða nokkrar sögur. Og eflaust mundi ég ekki nenna að sitja einn heima fyrir framan tölvuna, sverfandi á mér fingurneglurnar að verki loknu, ósnertanlegur eins og guð. Ástarsögu guð.
Ég veit ekki hvað ég sé? Ég veit ekki á hvað leið ég er? Ég veit það bara eitt að ég valdi rétt þegar ég ákvað að hætta að gæla við þá hugmynd að skrifa um bændur í snjóstormi að bera út nýfædd börn sín. Enda hefur það allt verið gert fyrir svo löngu síðan að fólk hefur gleymt öllum þeim bókum. Því að fólk gleymir líka því sem vel er gert. Eins og ég gleymi þessari heimatilbúnu tilvistarspeki minni um leið og ég hef skrifað orðin.
Þess vegna er best að vera einfaldur og stjórnast af einföldum hvötum. Svona eins og kakkalakki. Ég ætla því að kakkalakkast á eftir með félaga mínum að horfa á Lyon - Man.utd. Borða pizzu og drekka bjór. Og prumpa og ropa og reyka mikið og hlæja stórkarlalega en samt innantómt af því sem við segjum og á að vera fyndið en er það varla. Því að stundum er það örvæntingin yfir því að vera einn sem stjórnar því hverja við hittum, hvað við gerum, hvað við segjum...
Kannski ætti ég bara að vera heima? Og byrja að skrifa bók. Um ást...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.