4.3.2008 | 18:19
Sjónvarpsþáttur og Déjá vu
Á leiðinni niður Laugarveginn í dag í þessu frábæra úrhelli sló því niður í rennblautan heila minn (vatnið síaðist örugglega í gegnum skinn og bein) að líf mitt væri eins og ég væri persóna í útþynntri eftirlíkingu af Sex and the City, bara um karlmenn og fyrir karlmenn. Og skrifað, leikstýrt og framleitt af finnska sjónvarpinu. Lítil gæði í myndartöku og ekki mikið verið að splæsa í samtöl í handritinu. Og vinahópurinn fjórir karlmenn sem geta ekki hætt að djamma. Og í stað þess að eyða öllum peningum í skó og handsnyrtingu, horfa þeir á fótbolta, spila billiard og drekka. Bjór og viskí í stað kokteila. Og tala um bolta og bækur. Forðast það að tala um tilfinningar og það sem þeir þrá. Og þegar líður á kvöldið hætta þeir að tala. Sitja bara og þegja. Ef einn þessara ólukkulegu karlmanna álpast svo til þess að ná sér í kvenmann þá er það fyrsta sem hann gerir að eyða vinum sínum út úr gemsanum. Þeir hætta líka að hringja í hann og tala um hann sem ,,heitinn".
Þetta yrði frekar leiðinleg þáttarröð. Og eflaust tekin á handvél og tökurnar hreyfðar, gráar og stundum ekki í fókus. Það yrðu heldur engir dramatískir hápunktar. Enginn mundi ganga í hjónaband, enginn eignast barn, enginn ættleiða, enginn fá stöðuhækkun... Kannski mundi eitthvað fótboltalið vinna bikar og strákarnir faðmast sveittir og fullir inni á troðfullum bar. Einn þeirra væri meira að segja í bol merktum liðinu undir jakkanum. Svo mundu þeir syngja einkennissöng liðsins og sulla yfir sig bjór. Einhver mundi svo deyja í endann. Eflaust ég. Ég er svo óheppinn.
Nú getur einhver stolið þessari hugmynd og gert hann að sinni. Verði þér að góðu og vertu fljótur áður en Finnarnir hefjast handa við framleiðslu á svona þáttum. En mér finnst ég samt sem áður oft vera fastur í einhverri endalausri og illa skrifaðir sápuóperu. Eflaust hef ég sagt það eða skrifað áður? Ég veit samt ekki hvers vegna ég hef þetta alltaf á tilfinningunni? Af því að ég er alltaf að lenda í heimskulegum aðstæðum sem mér finnst aldrei koma fyrir neinn annan en mig? Kannski upplifa fleiri en ég svona bull? Eða er þetta bara áhrif frá sjónvarpinu? Fólk horfir svo mikið á það og samsvarar sér persónum í sjónvarpinu? Ég hef aldrei getað samsvarað mér neinum nema Derrick og Matlock. Baugarnir og hvað þeir voru skrítnir gamlir menn. Ég verð þannig. Nema ég mun ekki leysa sakamál. En kannski vera sólginn í pylsur? Eina skiptið sem ég reyndi að líkjast sjónvarpsstjörnu var þegar ég bað stúlkuna sem klippti mig að klippa mig eins og DR. Spock (ekki Óttar P. heldur geimkarlinn) og hún harðneitaði að gera mér þann óleik. Og klippti mig bara alveg eins og venjulega. Déjá vu. Alltaf.
Athugasemdir
Var að lesa þessa færslu og þessa þarna á undan henni.Freistandi að segja þér hvað mér fannst það gaman en sleppi því.... get ekki verið þekkt fyrir að hrósa þér í hvert einasta helv... skipti:)
Heiða B. Heiðars, 4.3.2008 kl. 22:03
Þá skaltu bara hafa þínar skoðanir fyrir þig. En það er skemmtilegra að fáir lesi mig og hafi gaman af en að 892 lesi hvað mér finnst um verðbólgu og fíkniefnabrot.
Kreppumaður, 5.3.2008 kl. 09:27
Ég á eiginlega í svipuðum vanda og Heiða, maðu getur ekki verið 'þekktur fyrir að hrósa þér í hvert einasta helv... skipti'
Þetta er þó eina bloggið sem ég hef mælt með við þá sem ég þekki.
zazou (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 23:02
Prófaðu þá að atast í mér? Kalla mig aumingja og drykkjuhrút og landeyðu og... Það gæti verið fun?
Kreppumaður, 5.3.2008 kl. 23:16
Ef það er at sem þú sækist eftir, þá skaltu klípa aðeins í VG/feminista.
zazou (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 23:23
Nei, veistu, ég nenni ekki að rífast við fólk út af skoðunum. En ef fólk nennir að skíta mig út vegna þess hvernig ég er, þá finnst mér það í lagi. Fannst gaman þegar Heiðu fannst ég of yfirborðslegur og mikill neimdropper (eg sem nefni engan á nafn) enda finnst mér öll gagnrýni góð. Þótt að ég fari aldrei eftir henni. Enda ætti yfirskriftin á þessu bloggi að vera: hér er bloggað um konur sem komu og fóru! (Líka þær sem bara lásu og fengu ógeð)!
Kreppumaður, 5.3.2008 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.