5.3.2008 | 22:43
Ör og jarðafarir
Á morgunn fer ég í kistulagningu. Svo er jarðaförin eftir helgi. Mjög sennilega verð ég líkmaður. Ég hef verið það tvisvar áður. Borið tvo vini mína til grafar. Það eru meira en tíu ár síðan síðast. Í fyrstaskiptið var ég bara tvítugur og kvöldið áður en jarðaförin var fórum við vinir hins látna út að spila fótbolta. Við hefðum betur sleppt því. Í skallaeinvígi skall ég og annar strákur saman með þeim afleiðingum að ég fékk risa glóðarauga og hægri augnabrún fór í sundur. Í jarðaförinni var ég því með dökk sólgleraugu til að hylja bólguna. Hlýtur að virka mjög tilgerðarlegt fyrir þá sem sáu. Og augnabrúnin fór í sundur og í mörg ár var örið þess valdandi að ég var á svipinn eins og ég væri alltaf hissa - á öðru auga. En örið gréri eins og öll önnur ör gróa. Bæði þessi á sálinni og þessi á líkamanum. Núna er ég bara með eitt ör. Langt og bólgið bakvið hægra eyrað eftir að hafa verið sleginn með bjórglasi í höfuðið í haust. OG ég strýk stundum þessu öri þegar ég hugsa um ákveðna hluti í lífi mínu. Sit þá og rifja upp og strýk þessu öri. Það veitir mér fróun. Ég held nefnilega að það sé nauðsynlegt fyrir alla að bera einhver ör. Á líkama og sál. Það sýnir að við höfum lifað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.