6.3.2008 | 00:37
Smá minning um son minn
Fyrir næstum tveimur árum bauð sonur minn mér á Belle and Sebastian á Nasa. Fóstri hans átti boðsmiða sem hann vildi endilega gefa okkur. Hann þoldi ekki sveitina eftir að hafa túrað með henni nokkrum árum áður. Við feðgar fórum og skemmtum okkur mjög vel. Og ég komst að því að sonur minn, þá næstum 12 ára, var meira kvennagull en úldni karl faðir hans. Stúlkur kepptust um að klípa hann í kinnarnar og rugla á honum hárinu. Og gefa mér símanúmerin sín. Alla vegana tvær. Ég var reyndar ekki móttækilegur fyrir því, ég hafði hitt dís minna drauma sem ég kvæntist skömmu síðar. Og er líða tók á kvöldið og hljómsveitin komst í meiri ham og við feðgar vorum búnir að drekka dálítið af bjór og gosi, þá fórum við og dönsuðum. Og við þetta lag sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur þá. Og það er ein besta stund lífs míns. Að standa á miðju gólfi á Nasa í þvögu sveitta karla og kerlinga og dansa við son minn, sem var næstum orðinn unglingur og sveiflaði lubbanum eins og þungarokkari í takt við tónlistina sem var honum svo kær. Og eftir tónleikana gengum við heim í mildri sumarnóttinni og skipulögðum ferð á Morrissey sem þá var á leiðinni. Og núna þegar ég á það yfir höfði mér að fá þennan dreng sem sambýlismann, þá hlakkar mig svo til. Til allra þeirra stunda þar sem við getum deilt sameiginlegum áhuga okkar á tónlist. Og öllu öðru. Og ég veit að ég verð aldrei hamingjusamari en daginn sem við berum dótið hans upp á þessa þriðjuhæð og opnum rauðvín og gos og setjumst niður til þess að draga djúpt anda og skála fyrir því að vera saman, alla daga.
Athugasemdir
Skemmtileg minning. Þetta lag er líka frábært.
Ragga (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 07:10
Gaman að búa til og eiga svona skemmtilegar minningar, þær dofna seint.
Gunnhildur Ólafsdóttir, 6.3.2008 kl. 11:42
Stundum er gaman að vera pabbi.
Kreppumaður, 6.3.2008 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.