Á dauða mínum átti ég von

Ef ég væri einhver annar en ég þá færi ég ekki jafn mikið í taugarnar á fólki.  Ég hef það ekki á tilfinningunni, ég veit það að ég get farið undir skinnið (eins og enskir segja svo frábærlega) á fólki sem þekkir mig ekki vel.  Ein kona sem vann einu sinni með mér fyrir mörgum árum vill til dæmis meina það að ég sé húmorslausasti og leiðinlegasti maður sem hún hefur kynnst.  Hún var svona kona sem hló öllum stundum.  Að engu.  En aldrei af mér.  Eftir nokkrar vikur í samstarfi var það farið að fara í taugarnar á mér.  Ég var kannski í hlutverki fíflsins á kaffistofunni og skemmti fólki með heimskulegum sögum af því sem ég gerði (það var fyrir daga bloggsins og ég talaði meira en þá en í dag) og hún kom inn, leit á mig og strunsaði út.  Þessi óvild hennar jókst svo með tímanum.  Og fór alltaf meira og meira í taugarnar á mér.  Það var alveg sama hvað ég gerði eða sagði, ef hún sá mig opna munninn, setti hún upp vanþóknunar svip og strunsaði í burtu.  Tuldraði jafnvel eitthvað um það að það væri ábyrgðarleysi að hafa svona kjána í vinnu.  Mér leið svo sem ekkert illa yfir þessu en var samt smá hissa því að ég hafði mér vitanlega ekki gert þessari konu neitt.  Bara gasprað einhverja vitleysu eins og gengur og gerist.  En sennilega var hún of alvarleg til þess að kunna að meta það.  Svo hætti ég.  Og hugsaði ekki meira um þessa konu þangað til ég rakst einu sinni á hana á Laugarveginum.  Ég ætlaði bara að ganga framhjá án þess að heilsa, vildi nú ekki ónáða þessa frú meira en gengur og gerist en viti menn.  Hún ekki bara stoppaði mig úti á götu, heldur greyp í handlegginn á mér og allar flóðgáttir opnuðust.  Og ég lenti á kjaftatörn við hana þar sem hún hló og talaði út í eitt, svo tárin streymdu niður kinnarnar á henni, af tómri kátínu.  Ég held að hún hafi sagt mér tveggja ára skammt af slúðri frá þessum vinnustað.  Og kvaddi mig með því að kyssa mig á báðar kinnar.  ég stóð eftir jafn hissa og ef ég hefði séð fljúgandi disk og grænar geimverur fyrir utan heima hjá mér.  Fólk getur komið manni endalaust á óvart.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband