Að deyja og deyja og deyja

Ég ætla að vera einhver annar en ég er í kvöld.  Og fara og horfa á hrukkurnar í andlitum fólksins sem ég kann að mæta.  Og hugsa um dauðann og hugsa um dauðann og hugsa um dauðann.

Og ekki snúa aftur fyrr en þessi hrollur sem setið hefur í mér í allan dag er horfinn.  Þessi hrollur og þessi sorg yfir liðnum stundum sem aldrei koma aftur og yfir því hvað við nýtum þær yfirleitt illa.

Það er stundum í lagi að vera dapur og þungur.  Það er stundum í lagi að gráta með orðum þegar maður hefur ekki þennan hæfileika að fella tár.  Það er stundum í lagi að vera meyr.  Mér finnst ég alltaf vera meyr.  En það er eflaust ástæða fyrir því?

En það brosti stúlka til mín á Lækjartorgi í dag og sagði hæ.  Og ég þekkti hana ekki.  Og það minnti mig á það að það er til fólk sem man eftir þeim sem það hittir.  Það er til fólk sem kann að gefa.  Og ég stóð bara dökkklæddur að bíða eftir mágkonu minni og horfði á eftir henni og tók eftir því að hún var í stuttu pilsi og síðri úlpu.  Og hárið var dökkt og stutt og úfið.  Og ég veit að ég mun aldrei sjá hana aftur.  Enda skiptir það ekki máli.  Þótt hún væri fögur.

Þegar ég kemst að því hvað skiptir máli, þá deili ég því eflaust með einhverjum.  En ég held að það sé ekki dauðinn.  Og ekki heldur dökkhærðar stúlkur í stuttum pilsum.  Eða snjór í fjallshlíðum eða vor í einangruðum firði þar sem öll hús eru gömul og skökk og málningin öll flögnuð og manni verður hugsað til þess að einu sinni bjó önnur kynslóð í þessu landi en hún er farin...

Kannski er það rétt að ef maður dokar við innan um gömul hús sem brakar í ef hreyfir vind, þá geti maður heyrt nið aldanna?  Þá geti maður upplifað sögu þeirra sem voru? 

Segir aldan í fjöruborðinu manni eitthvað?  Eða mosi sem vex á steini?  Lærir maður eitthvað á þeim sem á undan hafa gengið?  Kennir dauði einhvers okkur hvernig við eigum að lifa?  Eða hvernig við eigum að deyja?

Ég sá fyrir mér í dag mína eigin kistulagningu.  Horað gamalmenni í hvítri kistu.  Sonur minn og eiginkona og eina barn þeirra.  Tveir gamlir frændur, lifrasjúkur drykkjubróðir.  Og prestur.  Aðrir voru þar ekki.  Þetta eru sporin sem ég mun skilja eftir mig.  Tár miðaldra sonar og nafn sem ég risti í tré í fyrra vor.

Í tré sem grær og lifir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Æi hvað þú ert eitthvað ágætlega vel saman settur. Varla hægt að þverfóta fyrir fólki þarna úti sem hefur ekki eina taug sem nemur tilveruna. Fínt að finna þig hérna

Heiða B. Heiðars, 6.3.2008 kl. 22:45

2 Smámynd: Kreppumaður

Hef yfirleitt heyrt að ég sé tilfinninglalega bæklaður og ófær um að skynja fólk.  Gott að einhver hefur ekki sömu skoðun á mér og sumir....

Kreppumaður, 7.3.2008 kl. 01:49

3 Smámynd: Lárus Gabríel Guðmundsson

Eins og Jón Höskuldsson sagði um árið: Yndislegt, hreint yndislegt !!!

Lárus Gabríel Guðmundsson, 7.3.2008 kl. 22:03

4 Smámynd: Kreppumaður

Takk fyrir það.

Kreppumaður, 7.3.2008 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband