7.3.2008 | 20:10
Pólverji kemur í heimsókn
Ég var varla kominn heim frá daglegu amstri og tuði en það var bankað uppá hjá mér. Fyrir utan stóð karlmaður á mínu reki og spurði á bjagaðri ensku hvort ég væri rithöfundur. ,,Hver er núna að gera grín?" Hugsaði ég um leið og ég sagði honum hvað ég gerði. Hann skildi það ekki. En gat gert það ljóst að hann væri að leita að einhverjum sem gæti lesið og skrifað íslensku. Ég taldi mig geta það og bauð honum inn. Hann var með bæklinga og umsóknir um atvinnuleysisbætur. Ég blaðaði í gegnum þá á meðan ég skemmti mér yfir skelfingarsvipnum sem kom á hann er hann skoðaði olíumálverkin í stofunni. Þau eru ekki allra. Sérstaklega ekki þetta nýjasta, flennistórt verk af dvergakonu að hýða gamlan mann með svipu. Hún er mjög afskræmd í korselettinu sínu og ég fékk það á tilfinninguna að Pólverjinn, því að pólskur var hann, teldi mig einhvern stórhættulegan pervert. Ég þýddi fyrir hann það sem þýða þurfti og útskýrði fyrir honum í hvaða línur hann ætti að skrifa viðeigandi útskýringar. Hann var mjög þakklátur fyrir hjálp mína. Sagðist búa í næsta húsi og stundum sjá mig á hlaupum. Hann þekkti enga íslendinga fyrir utan þá sem hann vann með og yfirmann hans sem rak hann þannig að hann gat ekki snúið sér til þeirra. Ég gaf honum rauðvínsglas og spurði hann út í lífið í Póllandi. Hann svaraði því alltaf á sömu leið með því að brosa, hrista hausinn og tuldra fokkingshitt. Hann spurði mig hvort ég væri ríkur. Það væri svo mikið af bókum og málverkum hjá mér? Í Póllandi ætti bara mjög efnað fólk bækur og málverk. Ég sagðist ekki vera ríkur. Og ekki kæra mig um það en ég kæmist ágætlega af. Hann sagði mér að menn eins og ég væru ekki matvinnungar í heimalandi hans. Ég sagðist trúa því, þannig væri það líka farið með marga hér á Íslandi. Ég sagði honum að mig minnti að byrjunarlaun sálfræðinga væru um 250þús kall. Og að ég hefði neitað tilboði um kennslu því að það væri ekki hægt að lifa á því. Honum fannst erfitt að búa á Íslandi. Konur litu ekki við honum og félögum hans. Þeir væru oft mjög einmana. Mér fannst hann auka á þunglyndisstemninguna í íbúðinni. Svo höfðum við ekki neitt lengur að tala um. Hann kláraði úr glasinu og laumaðist til þess að líta aftur á málverkin. Svo kvaddi hann með loforði um að bjóða mér einhvern tíman í mat til sín og félaga síns. Ég sagðist hlakka til og meinti það. Ég hef oft skemmt mér vel með drykkfeldum slövum. Þessi nágranni minn heitir því ópólska nafni Albert. Það kom mér mest á óvart.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.