7.3.2008 | 20:31
Örlítið um kvöldið og ...
Í kvöld stendur tvennt til boða. Að fara á blúsað fyllirí með litlu systur og tala um liðnar ástir og hvernig dagarnir hafa glatað lit sínum og ölduniðurinn hljóm sínum og himininn blámanum. Og ræða um það hvernig henni gangi að skrifa úti í Berlín? En það getur líka beðið þangað til á morgunn. Svo get ég líka farið til vinkonu minnar og drukkið hóflega rauðvín og horft á sérviskulegar kvikmyndir? Ég er ekki alveg búinn að gera upp hug minn þótt að mér lítist alltaf best á að hella systir mína skáldlega drukkna. Hún verður svo skemmtileg. Og sæt. Og blíð og minnir mig alltaf meira og meira á mig. Þegar ég var ungur. Og ef ég hefði verið sæt stelpa. Það gera taktarnir og hvernig hún talar og hugsar og kryfur hlutina. Og lygnir aftur augum þegar hún fer að finna á sér.
Ég er mjög þakklátur fyrir ættingja mína. Það er upp til hópa fólk með stórt hjarta og góða greind og næman smekk á listum. Enda hugsa ég oft um það hvernig hefði farið ef ég hefði fæðst inn í annarskonar umhverfi? Til dæmis umhverfi þar sem allt hefði snúist um að græða sem mesta peninga? Ég væri þá örugglega með tvöfaldra tekjur í dag en laus við smekk á því sem mér finnst í dag gefa lífinu tilgang. Því að það er sama hvað gerist, ég á alltaf athvarf í listinni. Og get notið þess sem fallega er framsett sama hversu skýin fyrir ofan höfuðið á mér eru dökk og drungaleg.
Athugasemdir
hlakka til að sjá þig elsku bróðir!þín hefur verið sárt saknað....
systir (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 00:33
Ég veit. Ég veit. Við dettum í það hjá Flóni.
Kreppumaður, 8.3.2008 kl. 06:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.