Jarðaför

Var að stíga út úr sturtu þegar ég heyrði í syni mínum koma inn.  Heyrði hann kalla: blessaður gamli!  Leit fram og þarna stóð hann í þröngum svörtum jakkafötum (fermingarfötin) bindislaus og nýklipptur en samt með úfin rokkaralubba.  Hvernig líst þér á, spurði hann?  Föðurhjartað í mér varð örlítið meyrt; þú ert að verða eins og ég.  Nei, þá þarf ég að stækka, lengja á mér nefið og lita hárið.  Tími því ekki, það er of dýrt.  Settu á tónlist meðan ég raka mig, svaraði ég og hvarf aftur inn á bað.  Er The Brian jonestown viðeigandi fyrir jarðaför spurði drengurinn?  Nei, svaraði ég, þeir eru aldrei viðeigandi nema þú sért reivinggeðveikur eða systir mín.  Hann setti þá samt á.  Ég rakaði mig.  Við tókum leigubíl í kirkjuna.

Athöfnin var ekki eins erfið og kistulagningin, þrátt fyrir Hærra minn guð upp til þín, Ave Maria og annað tilfinningaklám.  Það var ekki fyrr en við karlmennirnir stóðum við hlið kistunnar og áttum að lyfta henni upp að ég viknaði örlítið.  Að bera einhvern til grafar er það síðasta sem maður gerir af væntumþykju fyrir viðkomandi.

Og þegar við stóðum yfir kistunni var kominn mjög fallegur vordagur.  Smá snjór ennþá á jörðu en græn strá að stinga sér upp í gegnum svörðinn.  Og sól og blátt á milli skýja.  Dagur sem maður getur munað síðar.

Svo erfidrykkja og endalausir kossar og faðmlög.  Fólk að snýta sér og strjúka í burtu tár. 

Og loks við tveir úti í sólinni að ganga í áttina heim.  Hann að fara til sín, ég til mín.  Ég minnti hann á áttræðisafmæli sem væri skammt undan.  Hann sagðist ætla að muna eftir því.  ,,Af hverju eru sumir frændur mínir svona skrítnir", spurði hann áður en við kvöddumst?  ,,Af því að við erum afkomendur landflótta norðmanns sem var ekki allur þar sem hann var séður"  Var eina svarið sem ég gat gefið honum.

Og ég hélt heim.  Til þess að fínpússa það sem ég er búinn að vera að skrifa.  Og hugsa um ættingja mína.  Sérstaklega karlpeninginn í móðurætt minni sem er allur steyptur í sama mótið.  Kjaftforir, kaldhæðnir, greindir en samt í svo miklum erfiðleikum með sjálfan sig að þeir eru nánast ófærir um það að reima á sig skónna.  Við líkjumst þeim.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Hrós verður eitthvað svo merkingalaust þegar það er ofnotað....finnst ég á mörkunum. En þakka bara kærlega fyrir mig..aftur

Heiða B. Heiðars, 11.3.2008 kl. 20:38

2 Smámynd: Kreppumaður

Það er svo óþarfi að hrósa mér.  Ég veit hvað ég get og ég þekki annmarka mína.  Þess vegna eru allar mínar bloggfærslur eins uppbyggðar, skrifaðar á líkan hátt.  En það virkar.  Eins og bold and the....

Kreppumaður, 11.3.2008 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband