Dramað úr gömlu tölvunni

Ég var varla skriðinn heim á sunnudagskvöldið en vinkona mín hringdi í mig og vildi fá mig til þess að drekka með sér bjór.  Og þar sem ég er rosalega viljalaus og hafði vanrækt hana þá slöttólfaðist ég af stað.  Fyrst töluðum við um það sem við höfðum gert um helgina.  Ég sagði henni frá næstum öllu sem ég hafði gert (nema að ég hefði hitt konu því að það er svo erfitt að segja frá einhverjum sem maður þekkir ekki nema maður hafi æviágrip til þess að styðjast við.  Með notuðum bílum fylgir bók sem dásama kosti hans og kraft.  Ekki með notuðum konum) sem var frekar innihaldslaus lýsing á því fólki sem ég hafði hitt, því áfengi sem ég hafði drukkið, þeim stöðum sem ég hafði heimstótt.  Hún sagðist hafa reynt að vinna 14 tíma á dag og væri kominn með ritstíflu.  Ég sagðist alltaf vera með ritstíflu nema þegar ég blogga um fornar ástir.  Hún spurði hvort ég ætti eitthvað sem gæti hjálpað henni.  Ég sagðist ekki hafa nein númer hjá díler.  Hún sagði að ég væri fífl.  Hvort ég ætti eitthvað sem ég hefði skrifað sem gæti hjálpað henni til að ná flugi.  Ég geispaði og velti því fyrir mér í andartak hvort að ég ætti að rukka fimmþúsundkall fyrir grammið af útprentuðum orðum?  Þannig að hún gæti komist á flug?  Sagði svo að hún mætti fá gömlu tölvuna mína ef hún hefði áhuga á því sem þar væri að finna.  Þar væri ekkert nema gamla bloggið mitt og ósent ástarbréf og endurminningabrot sem væru öllum leiðinlegur lestur nema kannski einhverjum afkomendum mínum eftir áratugi.  Og nokkur hálfkláruð handrit að sérviskulegum skrifum sem aldrei áttu að koma fyrir augun á neinum nema mér.  Hún lyftist upp í stólnum og sullaði næstum yfir mig bjór af þakklæti.  Ég sagði að hún mætti sækja harðadiskinn en ég yrði þó kannski að ritskoða hann fyrst.  Þar væru meira en 800 mailar frá ákveðinni stúlku til mín sem ég vildi ekki að hún læsi og jafnvel eitthvað meira persónulegt.  Þannig að ég er að þessu í kvöld.  Ritskoða sjálfan mig og færa úr gömlu tölvunni yfir í þá nýju það sem ég vil eiga.  Og það sem ég vil muna eins og það var en ekki eins og minnið mun láta mig muna það eftir þrjátíu ár.  Og þessi lestur/yfirfærsla/ritskoðun er búin að koma mér í ljómandi skap.  Eins og að lesa ævisögu eftir einhvern ævintýramann.  Alltaf eitthvað að gerast.  Föll, hrasanir og upphafning næstum til sólu.  Mikið voru síðustu fimm ár í lífi mínu eitthvað viðburðarík og dramatísk.  En ótrúlega skemmtileg og mikil ást og hlýja í þeim.  Næst þegar ég verð dapur ætla ég að lesa möppuna:  dramað úr gömlu tölvunni.  Og komast í gott skap.  Vinkona mín má hirða allan hinn hroðann.  Efast um að hann hjálpi.  En hversu oft hefur það hjálpað manni sem keypt er í illa lýstu horni á skemmtistað og kostar fimmþúsundkall? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband