Baukar fullir af brostnum vonum

Var allt í einu að muna (í miðju símtali) þegar stúlka tók í höndina á mér fyrir mörgum árum og sagði:  ég ætla að sýna þér svolítið sem enginn veit um.  Og hún dró mig í myrkri undir örfáum stjörnum og deyjandi tungli yfir sæbarið grjót, niður í grýtta fjöru og þar sýndi hún mér svolítið sem hún hafði falið þar tuttugu árum áður og aldrei vitjað um.  Bréf í kaffibauk sem lýstu vonum hennar og þrám.  Og undir flöktandi loga kveikjara las hún upp lýsingu á manni sem hún vildi eiga.  Og því miður passaði útlitið við mig.  En ekkert annað.  Ég er alltaf svo heppinn.  En samt kysstumst við þarna og bátur þeytti þokulúðra undir kossinum og ský dró fyrir hin gamla mána svo hann sá ekkert sem hann hafði ekki gott af að sjá.  Þetta rifjaðist upp því að stúlkan sem ég var að tala við í síma í kvöld (frá því um helgina) sagði: ég verð að sýna þér svo margt!  Og ég hugsaði: vonandi ekki gamla kaffibauka fulla af brostnum vonum.  Ég er ekki maður í það ennþá.  Ég er ekki maður í neitt ennþá.  En ég gef þessu matarboði ennþá séns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég fann einmitt blað um daginn sem ég hafði krotað á nokkur atriði sem ég vildi skreyta mig með til að verða betri manneskja... það eru möööörg ár síðan ég skrifaði þetta og það eru ískyggilega mörg atriði þarna sem myndu fara aftur á svona lista ef ég væri nógu mikill masókisti til að skrifa annan. Ekkert sérlega góður árangur í átt að betri manneskju... en ég er viss um að ég er skemmtilegri...það er þó eitthvað

Heiða B. Heiðars, 13.3.2008 kl. 01:19

2 Smámynd: Kreppumaður

Ætla ekki að ljóstra upp hvað þessi stúlka sem ég bjó svo lengi með var búin að skrifa, en hún var ekki að leita að mér.  Síðar giftist hún líka öðrum manni.  Og eflaust betri.  En ég giftist líka betri konu.  Og skildi.  Það er einmitt inntakið í öllu: allt breytist ef maður breytist ekki með því.  Og á ekki miða með því sem maður ætlar sér.  Þeir eru nauðsyn.  Og hjálpa að okkur að halda stefnu. 

Kreppumaður, 13.3.2008 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband