Matarboð til að enda öll önnur matarboð

Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom í matarboðið var frænka mín.  Þú hér?  Spurði hún undrandi?  Hver bauð þér?  Bætti hún við eins og ég væri boðberi válegra tíðinda?  Ég sagði henni það.  Heimurinn er lítill sagði hún, vissirðu að við erum vinkonur?  Ég sagðist ekki hafa vitað það.  Hún á eftir að vera góð við þig ef þú verður góður við hana, sagði hún.  Ég svaraði engu, brosti bara og tók af borðdömu minni kápuna.

Setið var á nokkrum borðum sem mynduðu U.  Við vorum 26 í allt.  Þríréttaður matseðill og mikið af víni í öllum litum.  Andríkar samræður og ég passaði mig á því að móðga engan og vera ekki mikið ég.  Var bara rólegur og yfirvegaður og reyndi að hugsa áður en ég talaði.  Laug ekki upp á mig kynvillu eða barnaníðum.  Minnugur þess að hafa stundum áður orðið öðrum stúlkum til skammar.

Eftir aðalréttin var frænka mín beðin um að syngja.  Stúlka lék undir á píanó.  Og þegar hún söng:  Hugur minn þráir, hjartað ákaft saknar/er horfnum stundum, ljúfum dvel ég hjá...  Fann ég að tekið var um hönd mína undir borðinu.  Og ég leit á stúlkuna sem sat við hlið mér og við horfðumst í augu og brostum.  Og frænka mín fór svo hátt upp að glösin fyrir framan okkur nötruðu og ég hugsaði með mér að ég þyrfti eiginlega að gifta mig aftur og deyja, helst á hverju ári, til þess að geta fengið hana til að syngja þetta lag fyrir mig.  Og alla aðra.  Sem oftast. 

Og kvöldið leið við drykkju og glaum og gotur augna og stolnra snertinga.

Síðar stóðum við á úti á palli fyrir utan húsið og horfðum á Öskjuhlíðina og stjörnurnar á himninum fyrir ofan okkur og ég þagði og hugsaði um það að áður hefði ég upplifað svipaða stund:  garð og stjörnur og stúlku.  En samt, þrátt fyrir að sú minning væri mér ennþá mjög kær og skýr,  fór ég úr jakkanum mínum og lagði um naktar og grannar herðar þegar ég sá að henni var kalt og ég sagðist sjá eftir kvöldinu áður (fimmtudeginum en þá reyndi ég að binda enda á kynni okkar) og að ég vildi hvergi annarrstaðar vera en undir þessum himni með henni.  Hún sagði að ég væri sætur.  Ég sagði að það væri umdeilanlegt.  Við vorum hljóð.  Þekkirðu einhverjar stjörnur spurði hún loks.  Ég drap í sígarettu og sagði:  bara okkur tvær.  Og hún hló.  Þú ert skáld, sagði hún loks og hrukkurnar í kringum munninn og augun, þegar hún brosti, gerðu hana enn fallegri.  Ég yrki ekki svaraði ég.  Víst, sagði hún, þú yrkir í fólk.  Það er það hættulega við þig.  Ég tók utan um hana og hugsaði með mér að hún léti mig hljóma eins og skæðan flagara.  Og ég hugsaði um aðra stúlku og kvaddi hana og þakkaði fyrir alla ástina sem hún bar til mín fyrir svo löngu síðan.  Sagði svo upphátt:  Þú veist að það er ekki til ást?  Fólk elskar ekki, það telur sig gera það vegna þess að það langar að gangast einhverri hugmynd á vald!  Við þögðum.  Svo sagði hún:  fólk elskar, þótt að þú getir ekki skilgreint ást.  Ég veit að þú elskar líka.  Einhverja konu úr fortíðinni, son þinn, systir.  Svo marga.  Þú ert bara að reyna að vera leiðinlegur eins og í gær.  Ég þagði og sá að stjörnurnar fyrir ofan okkur voru sápukúlur sem sprungu þegar ég snerti þær.

Síðar tróðumst við inn á Ölstofuna og í þvögunni kom móðir mín og faðir á móti mér ásamt fleirrum ættingjum og mökum þeirra.  Svipurinn á móðir minni var eins og einhver hefði dregið rautt strik þvert yfir andlit hennar.  Hvað kona ert þú, spurði hún stúlkuna og horfði á hana með augnaráði sem var eins og hvassir bambusprjónar notaðir til að setja undir fingraneglur fanga.  ,,Hvaða kona ert þú" sagði deili á sér og rétti fram hönd.  Faðir minn tók í hana og brosti.  Sagði eitthvað um það að það væri gaman að kynnast henni.  Ég var á svipinn eins og kúbískt málverk eftir sama mann frá því að er ég fæddist.  Það hefði verið hægt að hengja mig upp á vegg og setja verðmiða undir mig og gefa fólki rauðvín og gangrýnendur hefðu skrifað eitthvað um að faðir minn hefði náða að mála ásjónu dauðans.  Móðir mín hélt áfram:  X hefur einu sinni gifst og það er eina konan sem ég mun líta á sem tengdadóttir mína, mundu það!  Þögn.  Kúbískamálverkið varð að martröð eftir Dalí.

Þú fagra minning eftir skildi eina/sem aldrei gleymist, meðan lífs ég er...

Og við stóðum undir sömu stjörnum og fyrr um kvöldið og hún draup höfði og þagði og ég þagði því að ég þorði ekkert að segja.  Móðir þín er grimm stundi hún loks upp!  Láttu mig vita það, svaraði ég, þegar hún bauð mér og fyrrverandi eiginkonu minni fyrst í mat starði hún lengi á hana áður en hún sagði:  Þú svona gáfuð og falleg hefðir getað gert svo mikið, mikið betur!

Stúlkan hló, leit upp og rétti út hönd.  Ég tók í hana.  Snertingin var mjúk og hlý.  Þú veist að þetta á bara eftir að versna, sagði ég!  Já, hvíslaði hún, þetta er bara móðir þín, þú ert mikið klikkaðri.  Ég svaraði engi. Stóð bara og hélt í hönd hennar og yfir okkur voru tungl og stjörnur og gervihnettir og götuljós og kannski gamall guð með hvítt skegg sem leggur hindranir í veg fyrir allt fólk.  Þessi grimmi og vondi guð sem er alltaf að reyna Ísraelslýð og afkomendur Kains.  Þessi guð sem reynir allt hvað hann tekur að láta öllum líða eins og Job.  Reyna að trú og staðfestu.  Þessi guð sem við fundum upp fyrir svo löngu til þess að réttlæta það hvað lífið er erfitt.  Eða:  hvað við erum veiklynd og gerum lífið erfitt með öllu því sem við gerum.

Ég leit niður, horfði á tærnar á henni í opnum skóm.  Hælarnir háir.  Fagurskapaðir leggir.  Hún var með gæsahúð.  Á háum hælum er hún á hæð við mig, hundraðáttatíuogsexsentímetrar.  Mér er kalt stundu hún og stóð á einni löpp meðan hún losaði af sér skóinn.  Svo hinn.  Tók þá í vinstri hönd og rétti mér þá hægri: komdu! 

Við hurfum inn í Þingholtin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

LOL móðir þín er náttúrlega frekar skemmtilegur karakter - að lesa um.

gerður rósa gunnarsdóttir, 19.3.2008 kl. 14:34

2 Smámynd: Kreppumaður

Hún er helvítis skass!  En stórskemmtileg samt sem áður.  Miðaldra pæja sem neitar að eldast, það liggur í þessari ætt, að neita að eldast.

Kreppumaður, 19.3.2008 kl. 14:39

3 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Hún segir í það minnsta það sem henni finnst.
Ég er einmitt að semja greinargerð um að banna ´aldur´. Fæ mömmu þína til að skrifa undir áskorun þar að lútandi til þar til bærra yfirvalda. Þetta er úrelt fyrirbæri.

gerður rósa gunnarsdóttir, 20.3.2008 kl. 13:42

4 Smámynd: Kreppumaður

Aldur er bara eitthvað sem við höldum að sé til staðar!

Kreppumaður, 20.3.2008 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband