28.3.2008 | 20:32
Silungsveiðar fyrir löngu
Búinn að sitja og endurskrifa síðan ég kom heim í dag, fyrir utan stutt hlé til þess að steikja túnfisk og tala við son minn í síma. Og undir þessu öllu er Charles Trenet búinn að syngja sig hásann. Hvar svo sem honum var nú holað niður? Og á meðan ég var að skrifa fór ég að hugsa um fólk sem er mér núna næstum horfið en var mér mjög kært og náið fyrir svo fáum árum. Ekki það að ég sakni þess? Allt hefur sinn vitjunartíma og ég rekst alltaf öðru hvoru á þetta fólk en innileikinn og nándin, vináttan er ekki sú sama og hún var. Kannski er það mér að kenna? Kannski engum? Við öll höldum okkar leið hver svo sem hún er? En við vorum vinir og því byrjaði að ljúka fyrir næstum sex árum við lítið vatn upp á nærliggjandi heiði...
Stóðum í fjörunni, móleitur sandur svo langt sem augað eygði og miðnætur sólin speglaðist í kyrrum vatnsfletinum. Og við Zerbinn pírðum augun og reyndum að koma auga á flotholtin. Í fjarska heyrðum við í feita Róbert og kvikmyndagerðarparinu. Þau voru orðin smá hífuð. Ég leit á Zerbann sem var ber að ofan í hermannbuxum og hreyfði sig ekki frekar en koparstytturnar niður í bæ. Er meira viskí til? Spurði ég loksins. Hann svaraði engu en benti á pokann. Ég stakk stönginni á milli tveggja steina og gekk að pokanum, hálf flaska eftir þar og ég bar hana að vörum mínum, saup tvisvar og fann það hitna í æðum mínum. Zerbinn sagði án þess að snúa sér við: hvað erum við búnir að fá marga? Tuttugu, þrjátíu sagði ég án þess að hafa hugmynd um það og saup meira viskí. Og klukkan er, spurði hann aftur á sinni hreimsterku ensku. Að verða tólf svaraði ég út í bláinn og kveikti mér í sígarettu. Hátt hróp barst frá annarri vík, þar sem grasbalar og tjöld stóðu. Ég leit þangað og sá að þau höfðu kveikt eld. Ég settist í sandinn, í snjáðum gallabuxum, strigaskóm og dökkbláum bol sem stóð á ,,eldri menn, yngri konur sem stúlka hafði gert handa mér. Saup aftur á viskíinu áður en ég skrúfaði tappann á og setti flöskuna í sandinn. Sat bara og reykti og horfði á vin minn draga að landi. Fann titring í vasanum og tók upp gemsann, sá að ég hafði fengið sms: en biturð þín er eitt þitt helsta aðdráttarafl þrátt fyrir allt, en ég er samt byrjuð að skoða brúðarkjóla á mig... Ég hló lágt og lagðist í sandinn og horfði upp í heiðan nætur himininn, bláan eins og vatnslitur að þorna á hvítu blaði og kríur á sveimi og tíminn svo víðsfjarri.
Þau sátu við eldinn til hlés við reykinn og létu rauðvínsflösku ganga á milli sín. Hún í miðjunni og þeir þöglir, berir að ofan sitthvoru megin við hana. Öll höfðu þau farið úr sokkunum þessa fögru nótt í byrjun júní. Tjöldin voru tvö, eitt fyrir mig og feita Róbert og annað fyrir parið, Zerbinn ætlaði að vaka alla nóttina eða sofa úti í svefnpoka. Sagðist hafa sofið oft úti þegar hann elti uppi bosníu múslima eða króata eða þýska málaliða eða saklausa borgara og skaut eða skar á háls fyrir svo löngu.
Hann vildi komast aftur í snertingu við tjetnikkinn í sér.
Eruð þið svöng, spurði feiti Róbert þegar við settumst niður og fengum okkur sopa af volgu víninu? Enginn svaraði. Við getum grillað silung, hélt sá feiti áfram. Ef þú nennir svaraði ég og fór úr skónum og hellti sandinum úr þeim. Parið var þögult og starði í bálið. Ég tékkaði á símanum, ekkert annað sms. Hún var sennilega á sirkús eða farin að sofa, það var aðfaranótt fimmtudags og bara fólk sem var atvinnulaust, forstöðumenn eða kvikmyndagerðarfólk, gat verið að hanga við eitthvert vatn í Mosfellsdal um miðjanótt í miðri viku. Ég gramsaði eftir viskíinu og drakk af stút. Stúlkan spurði: hvar er kærastan þín? Ég sagði: hún er ekki kærastan mín, og fékk mér annan sopa. Feiti Róbert, sísvangur var að pakka silungi inn í álpappír. Er engin tónlist hérna bætti ég við? Zerbinn sagði nei, við gleymdum því. Um leið tísti síminn minn, sms: Ég er að koma! Hvar ertu? Ég sendi til bak: við eitthvað vatn úti í rassgati!
Síðar lá ég berfættur í sandinum. Engin hljóð heyrðust. Sólin var ennþá á lofti. Fiskur stökk upp úr vatninu og gleypti flugu. Við hlið mér lá næstum tóm vínflaska. Ég lokaði augunum. Hef sennilega sofnað því að ég hrökk upp við það að feiti Róbert settist við hlið mér. Hann tók sopa af silfruðum pela. ,,Hvað ertu að drekka ? spurði ég. ,, Koníak svaraði hann. Ég tók við pelanum og saup á honum. Lagðist svo aftur í sandinn. ,,Ég vildi að við hefðum bát heyrði ég Róbert muldra. ,,Þá gætum við siglt.! ,,Þá gætum við siglt. Svaraði ég.
Zerbinn og kvikmyndagerðakonan voru að tala saman, með nefin ofan í hvort annars andliti eins og elskendur að hvísla leyndarmálum. ,,Hvar er maðurinn þinn? Spurði ég.,, Hann fór í fýlu! Svaraði hún og benti eitthvert út með ströndinni. Eldurinn var að kulna. Ég settist við eldinn. Leit á síman minn, klukkan var að verða 3 og nýtt sms hafði borist: góða nótt, yndislegi strákur, hugsa til þín...
Hún sat í fjörunni grátandi. Zerbinn og feiti Róbert voru í gönguferð með flösku af vodka. Ég settist fyrir aftan hana. ,,Eitthvað sem þú vilt deila með mér? Spurði ég. ,,Ég hata hann! Hann er asni og alki. Já, svaraði ég: en þið eruð gift. Og við þögðum og horfðum út á vatnið. Öðru hvoru snökti hún og axlir hennar gengu upp og niður. Kríurnar sveimuðu yfir okkur.
Loks voru allir sofnaðir nema ég og Zerbinn. Við sátum og rótuðum í glæðum eldsins með prikum, klukkan var að verða fimm. Heimurinn svaf. Frá tjaldi kvikmyndagerðafólksins bárust stunur, þau voru að sættast. ,,Heldurðu að þú giftist og eiginist börn" Spurði ég Zerbann. ;,,Nei,svaraði hann dapur, ég dey einn og öllum gleymdur!" Ekki mér, sagði ég lágt. Loks dagaði.
Í dag er hann giftur og á tvö börn. Kvikmyndagerðafólkið er fyrir löngu skilin. Ég líka. Og feiti Róbert. Og það er ekkert sem bindur okkur lengur saman nema gömul kynni og ástríða fyrir veiðum. Í hvert sinn sem ég og Zerbinn hittumst segir annar okkar: nú verðum við að fara að veiða bráðum! Og við brosum og samþykkjum það en aldrei verður af því. Það kemur ekki aftur sá dagur að þau komi öll á tveimur bílum og sæki mig á skrifstofuna til þess að fara að veiða því að veðrið er svo gott. Það kemur aldrei að því að ég liggi með einhverju af þessu fólki í fjöruborðinu og horfi á kríurnar hnita hringi yfir okkur og hlusti á vatnið gára við steina og viti að brátt bíti á. Við vorum vinir en því er lokið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.