Vorið er svo sannarlega að koma

Byrjaði á því að fara í Kolaportið og kaupa mér þrjár bækur.  Þar hitti ég kunningja minn sem sagði mér að stúlka sem ég þekkti hefði fallið fyrir eigin hendi fyrir nokkrum dögum.  Mér fannst það leitt að heyra en sagði að það hefði svo sem ekki komið mér á óvart.  Sumu fólki er lífið og listin oft of erfitt.

Rakst svo á föður minn sem var að koma af fundi og vara að spóka sig virðulegur með vindil á milli varana.  Ég brosti breitt yfir þessum óvænta fundi og við ákváðum að ganga spotta korn saman.  Hann byrjaði strax að minna mig á bækurnar í bílskúrnum hjá honum.  ég sagðist þurfa hillur.  Hann sagðist hafa beðið afa minn um að smíða tvær tveggja og hálfsmetra langar undir bækurnar.  Það ætti að duga.  Ég hef það á tilfinningunni að afi minn hafi lítið gert undan farin ár en að smíða handa mér bókahillur.  Við kvöddumst og ég stóð sjálfan mig að því að dást að því hvað faðir minn leit vel út 57 ára gamall.  Nánast eins og strákur þegar hann brosir og er í góðu skapi.  Í vikunni kemur hann með bækur og hillur en ég þarf að festa þær sjálfur upp.

Var svo varla búinn að skilja við föður minn þegar stór vinkona mín kom í flasið á mér.  Hún var svo glöð að sjá mig að hún táraðist af hlátri þegar hún sagðist alltaf vera á leiðinni að hringja í mig.  Hún tók um handlegginn á mér og sagði:  Núna göngum við okkur til ánægju og skröfum saman.  Hún var ánægð með það að ég væri ekki að manga til við einhvern kvenmann, ég hefði ekkert við það að gera.  Ég sagði að það væri lítið að marka hana, kaþólska og miðaldra og margfráskilda og eftir því bitra.  Hún spurði mig hvenær ég ætlaði að hætta þessu slítandi puði sem ég væri að vinna við og flytja til útlanda og aldrei koma aftur, því að það ætti ég að gera, þótt að henni þætti miður að hitta mig þá sjaldnar.  ég sagði henni að ég elskaði að hata Reykjavík og þrífast hérna.  Því færi ég aldrei.  Við settumst niður á Sólon og fengum okkur hvítvínsglas.  Og ég sagði henni upp og ofan af högum mínum síðan við höfðum sést síðast í desember.  Hún sagðist sjá son minn oft og að hann væri að verða mikill unglingur.  Ég samsinnti því.  Og svo slúðruðum við um ómerkileg atriði og kvöddumst með loforði um að hittast sem fyrst og drekka saman vína eða borða góðan mat.

Á leiðinni heim velti ég því fyrir mér hvers vegna lífið væri mér alltaf svona gott en öðrum oft slæmt?  Að í kringum mig sé svo mikið af góðu og skemmtilegu fólki að ég gæti hæglega ekki gert neitt annað en að sóselísara alla daga og öll kvöld ef ég hefði í það nennu og dug.  Ég hef það stundum á tilfinningunni að ég hafi fæðst undir heillastjörnu, þótt að ég reyni oft og iðurlega að skjóta hana niður eða veiða með háf þegar hún speglast í tjörn.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Oh ég var einmitt að hugsa þetta í dag! Frábært fólk sem ég hef í lífinu mínu og alltaf að bætast við þá mislitu flóru!
Pabbi kallar mig alltaf lukkunar pamfíl.... svei mér þá ef það er ekki bara rétt hjá honum, ekki að ég hafi hugmynd um hvaðan þessi pamfíll er kominn!

Heiða B. Heiðars, 29.3.2008 kl. 17:58

2 Smámynd: Kreppumaður

Skemmtilegt fólk er eins og að finna gullkrónu á götu skrifaði einhver sem er löngu dauður.  Er sammála því.

Kreppumaður, 29.3.2008 kl. 18:04

3 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég líka! Ótrúlega vanmetin eiginleiki!

Heiða B. Heiðars, 29.3.2008 kl. 18:09

4 Smámynd: Kreppumaður

Verst hvað það er samt til mikið af fólki með mínus skemmtanargildi.  Allt of margir.

Kreppumaður, 29.3.2008 kl. 18:11

5 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Ég hugsa að það sé ekki af því að þú sért skemmtilegur. Frekar af því að þú sért sætur og ekki leiðinlegur. Fólki vill hafa eitthvað fallegt að horfa á á meðan það talar. Og borðar.

gerður rósa gunnarsdóttir, 29.3.2008 kl. 19:07

6 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Ég meina sko út frá niðurlaginu í færslunni ...

gerður rósa gunnarsdóttir, 29.3.2008 kl. 19:08

7 Smámynd: Kreppumaður

Núna líður mér eins og heimskri fegurðardrottningu.  Ég hef áhuga á börnum og ferðalögum.  Og tala ekki ef fólk horfir á mig.  Bara brosi.

Kreppumaður, 29.3.2008 kl. 19:13

8 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Já, þú ert akkúrat svoleiðis týpa held ég. Svona passlega passívur og sætur.

gerður rósa gunnarsdóttir, 29.3.2008 kl. 19:51

9 Smámynd: Kreppumaður

Ég er horror í matarboðum.  Kjaftfor og ófyrirleitinn og leiðinlegur með áfengi.

Kreppumaður, 29.3.2008 kl. 19:58

10 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

ég var rétt búin að' lesa ´kjaftfor og ófyrirleitinn´ þegar ég hugsaði ´örugglega bara af því að hann er fullur´ ...
Auðvitað.

gerður rósa gunnarsdóttir, 29.3.2008 kl. 20:38

11 Smámynd: Kreppumaður

Hahaha... Heldurðu að ég sé fullur núna?  Klukkan ekki orðin níu?

Kreppumaður, 29.3.2008 kl. 20:42

12 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Ég held að þú sért Hrólfur. Svo eins eitthvað.

gerður rósa gunnarsdóttir, 31.3.2008 kl. 16:57

13 Smámynd: Kreppumaður

Ég er alla vegana ekki fullur núna

Kreppumaður, 31.3.2008 kl. 17:20

14 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Þá vitum við það.

gerður rósa gunnarsdóttir, 31.3.2008 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband