30.3.2008 | 20:08
Gönguferð og ljúf heimkoma
Fór í göngutúr í kulda en mjög fallegu veðri. Kom við hjá afa og ömmu sem eru á níræðisaldri en mjög hress. Fékk kaffi og amma sagði það sama við mig og hún hefur sagt við mig alla ævi - að ég væri að horast. Hún sagði það líka við mig þegar ég var tíu kílóum þyngri með velmegunarístru fyrir ekki svo mörgum árum. Kom mér svo vel fyrir í stofunni hjá þeim og skoðaði gömul myndaalbúm. Hef alltaf gaman að skoða myndir af fjölskyldunni og hvernig við höfum breyst og þroskast, vaxið og dafnað. Og nýir meðlimir fæðst. Og fólk komið og farið. Myndaalbúm ömmur eru góður minnis varði um kynslóð (ég og frændsystkini mín sum) sem hafa verið ístöðulaus í makavali. Sennilega þó mest ég. Þau spurðu mig út í nokkra vini mína og einhverjar fyrrverandi lagskonur. Ég reyndi að svara þeim eftir bestu getu hvar það fólk væri statt í lífinu og tilverunni. Svo skemmti ég þeim með sögum af því þegar ég og vinur minn brutumst einu sinni inn í ókunnugt hús og stálum þar pulsupakka og vodkapela. Þeim var skemmt yfir bernskubrekum mínum. Ég held að umburðarlyndara fólk sé ekki til. Afþakkaði boð um að borða með þeim kvöldmat, var of þreyttur til þess að nenna að tala meira og sá rúmið mitt í hillingum. Borðaði þess í stað súpu á leiðinni heim. Ennþá partý þegar ég kom heim. Kvenmannskór í tröppunum upp til mín. Ég get ekki ímyndað mér að einhver stúlka sem hafi átt við mig erindi hafi skilið hann eftir eins og Öskubuska af vonbrigðum yfir því að ég væri ekki heima. Ímynda mér frekar að drykkjuskapur og langvarandi misnotkun á miðtaugakerfinu hafi orðið til þess að einhver hafi skakkalapats út um miðjan daginn með maskara niður á kinnar í einum háhæluðum skóm og berfætt. Maður hefur svo sem séð það verra.
Athugasemdir
Ég dansaði við Cure í eldhúsinu í kvöld, trylltar við 10:15 en þó í báðum skónum!
Ragga (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 21:07
Ég er farinn að hreyfa mig í takt við trumbuslátt og það er sko ekki ég!
Kreppumaður, 30.3.2008 kl. 21:09
Þetta er heilaskemmandi tónlist!
Ragga (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 21:16
Hef hrapað langt niður fyrir meðalgreind eftir þessa helgi. Verð með þessu áframhaldi slefandi vanviti á miðvikudag.
Kreppumaður, 30.3.2008 kl. 22:21
,,langvarandi misnotkun á miðtaugakerfinu" vel orðað
Gunnhildur Ólafsdóttir, 30.3.2008 kl. 23:24
Verst að mitt er að skaðast um leið. Bara með óbeinum hætti.
Kreppumaður, 30.3.2008 kl. 23:30
Sprakk úr hlátri þegar ég sá þetta með að þau segðu að þú værir alltaf að horast. Amma og afi sögðu alltaf nákvæmlega þetta við mig í hvert skipti sem ég lét sjá mig. Notuðu einnig orðalagið að vera að ´detta í sundur´. Og afi hafði áhyggjur af því að ég greiddi mér aldrei. Og svo varð maður að troða sig út af allskonar mat og kökum áður en maður fékk að fara.
Ég sagði þeim þó aldrei frá mínum afbrotum; amma er svo guðhrædd og góð kona að hún hefði aldrei höndlað það.
gerður rósa gunnarsdóttir, 31.3.2008 kl. 17:27
Amma er einmitt svo guðhrædd og góð - í því felst húmorinn. En ég held að hún sé (eftir áratugi) farin að sjá í gegnum mig og að ég ýki eða færi í stílinn þegar ég vil hneyksla hana.
Kreppumaður, 31.3.2008 kl. 17:31
Ég braust einu sinni inn í garð með því að brjóta alveg eina girðingarspítu sem var hálfbrotin, á meðan amma drakk kaffi og borðaði kökur með vinkonu sinni í húsinu við hliðina á. Kannski stal ég rabbabara, man það ekki. Amma varð alveg miður sín þegar hún komst að þessu. Fór að gráta held ég bara (nema hún hafi verið að þykjast?).
Ég var fimm ára.
Síðan þá hef ég haldið öllum mínum glæpum fyrir mig.
gerður rósa gunnarsdóttir, 3.4.2008 kl. 15:08
... og passað mig að brjótast inn í garða sem eru EKKI við hliðina á löggustöðinni.
gerður rósa gunnarsdóttir, 3.4.2008 kl. 15:10
Það er mjög leiðinlegt þegar fólk hverfur af glæpabrautinni eftir svona efnilega byrjun eins og þú sýndir!
Kreppumaður, 3.4.2008 kl. 15:29
Ég er ógeðslega glataður glæpamaður. Því miður.
gerður rósa gunnarsdóttir, 4.4.2008 kl. 19:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.