Um sjódauða (úr óbirtu handriti bernsku minnar)

Þetta var eitt af þessum kvöldum þar sem snjórinn kom fjúkandi utan frá hafinu og lagðist í litla skafla við aðalgötuna. Og það var búið að slökkva á götuljósunum og einu ljósin sem sáust í bænum voru ljósin í eldhúsgluggum þeirra sem aldrei fóru að sofa því að þá gætu þau misst af því sem gerðist á götum bæjarins. En þar gerðist aldrei neitt. Ég man að ég sat á skrifstofunni minni og var nýbúinn að spenna tvær músagildrur og sat fyrir aftan tölvuskjáinn og horfði á pósthúsið. Vissi að rútan var tveimur klukkutímum of sein og hefði jafnvel verið snúið við vegna veðurs og þá kæmi hún ekki þessa helgi. Og vindinn var að herða og það brakaði í tréhúsinu og ef ég leit útundan mér inn rökkvaðan ganginn gat ég séð svipi drukknaðra sjómanna ráfa þar um í fornlegum skinnstökkum með sjóvettlingana dinglandi í böndum og tóftirnar gapandi í fölum andlitunum. En þeir hræddu mig ekki lengur.

Þeir höfðu verið mér félagsskapur mörg síðkvöldin þennan vetur þegar ég beið þess að eitthvað mundi gerast, beið þess að tími væri kominn til þess að halda út í mannlaust þorpið og ganga þessa fáu metra heim. Framhjá láreistum og skökkum timburhúsum, framhjá rækjuvinnslunni, framhjá klaustrinu á hæðinni sem í nóttinni hafði útlínur miðaldarkastala þegar flest ljósin höfðu verið slökkt.

Og þegar maður gekk aðalgötuna á leiðinni heim í nóttinni gat maður greint frá eyjunum hljóð sem einna helst líktust veini í drukknuðum skipshöfnum sem grétu af kvölum í hinu kalda og dökka víti sem vot gröfin hlýtur að vera með allar sínar svöngu rækjur og orma sem boruðu sig í gegnum húðina. Og það setti stundum að mér ugg og ég hræddist sjódauða þessar nætur þegar vindur og ýlfur barst af hafi.

... Djúpir, hvíslandi hafstraumar tíndu hold af beinum. Hann reis og hneig og endurlifði æsku og fullorðins ár á leið inn í svelginn...

Og ég sat heima í skini kerta og las ljóð og hugsaði um það hvað í andskotanum ég væri að gera í þessum bæ, þessu þorpi svo langt frá öllum ljósum og umferð þúsunda bíla.  Í þessu þorpi þar sem ég hafði ekki hugmynd um það hvort að ég byggi þar eða væri bara á leiðinni hjá?

Loks var hún kominn, snoðuð undir lopahúfunni í þykkri úlpu með tösku og beið þess að ég skytist yfir götuna. Tæki af henni töskuna og hvíslaði: hröðum okkur, ég kyssi þig á eftir. Og við gengum þessar dauðamerktu götur að húsinu sem ég bjó í. Og þegar við höfðum barið af okkur snjóinn og afklæðst yfirhöfnunum settumst við hlið við hlið í sófann og tónlistin sveif lágt yfir höfðum okkar og ég kveikti á kertum á meðan hún opnaði vín og í nokkurra metra fjarlægð brotnaði brimið og svarf kletta. Nálgaðist stofugluggann með hverjum deginum og er við höfðum sest niður, sátum við þegjandi og horfðum á veturinn og hafið. Og hún spurði: hvað ertu að hugsa? Og ég svaraði engu, tók sopa af víninu, starandi út í sortann og velti því fyrir mér hvort að mér þætti í alvöru vænt um þessa stúlku og heyrði varla þegar hún spyrði aftur: hvað ertu að hugsa? Og ég svaraði loksins: sjódauða.

Og mundi að margar daga, margar nætur hafði ég hírst á skrifstofunni í félagskap þeirra dauðu.  Og gengið með þeim götuna sem lá heim eftir að slökkt hafði verið á ljósstaurunum.  Og horft á opnar grafir þeirra í kirkjugarðinum og efast um geðheilsu mína yfir því að þetta væri raunveruleiki um leið og maður yfirgæfi neonlýsta Höfuðborgina.  Því þá væri maður umkringdur öllum þeim sem eitt sinn höfðu verið og mundu alltaf vera. Og líka öllum hinum sem eru og lifa lífinu á stöðum sem fólk eins og ég mun aldrei skilja.  Þar sem fólk hugsar bara um eitt: að lifa og að deyja.

Og vindinn herti og sjórinn frussaðist á gluggann og húsið lék á reiðiskjálfi og logar kertanna flöktu á hvítum veggjunum, á bókahillunum og ég stóð á fætur og gekk að bókaskáp og valdi mér bók og hún hjúfraði sig í sófanum og breiddi teppi yfir fæturna og sagði: þú segir nú aldrei margt.

Ég snéri mér við, brosandi og svaraði henni: Það á ekki við að tala hérna, ekki í þessu þorpi, þar sem þeir dauðu eru á ferð en íbúarnir sofa.

Og hún hryllti sig og tók sopa og andvarpaði: ég skil ekki hversvegna ég kem hingað!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband