3.4.2008 | 15:27
Ég var grimmur
Sumt fólk þolir illa sannleikann. Ég er engin undantekning. Ég þoli oft ekki að heyra um galla mína og bresti nema þá frá allra nánustu. Finnst eins og þeir sem þekkja mig lítið hafi ekki skotleyfi á fatlanir mínar. Samt finnst mér alltaf sjálfsagt að ég segi fólki hvernig það er?
Var óvenju pirraður í gærkvöldi og ekki hrifin af því að vinkona sem ég hef aldrei litið á sem vinkonu en hengdi sig einhvern veginn á mig, dró mig á barinn. Hún fór að spyrja af hverju ég virkaði fúll. Ég sagðist ekki nenna að hanga á bar mikið frekar vilja vera heima að lesa. Þá spurði hún hvort að mér þætti hún leiðinleg. Ég sagði að ég hefði stundum takmarkaða ánægju af samskiptum okkar. Að mér þætti hún alltaf vera í einhverjum mömmuleik gagnvart mér og ekkert gera nema að passa upp á mig. Og að þessum orðum sögðum var ég búinn að drepa vingjarnlega ,,að fá sér tvo drykki saman" stemninguna. Mér var eiginlega slétt sama. Stundum er ég eigingjarnt svín og sýni ekki aðgæslu í nærveru sála og allt það.
Nú er þessum vinnudegi næstum lokið. Ætla að fara og versla í matinn fyrir matarboðið í kvöld (sem ég var kominn á fremsta hlunn með að fresta) og fara og fá mér eitt glas á einhverjum bar til þess að slá á mesta kvíðann. Ég er ekki með sjálfum mér þessa dagana og nenni fáu nema að liggja undir sæng með bók eða tölvuna og dunda mér við iðju sem krefst ekki heilabrota. Kannski veturinn sé ekki alveg farinn úr höfðinu á mér?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.