3.4.2008 | 16:11
Um vináttu og myndlist
Rétt áður en ég ætlaði að stinga af úr vinnunni hringdi móðir mín í mig. Bara til þess að tilkynna mér að faðir minn hefði tekið þá ákvörðun að taka Serbneska vin minn upp á sína arma og sjá um útboð og útreikninga fyrir litla fyrirtækið hans (bara pólverjar sem vinna hjá honum) og annað s em hann gæti aðstoðað hann við. Fyrir tíu árum hefðu foreldrar mínir ekki gengið yfir götu fyrir þennan mann ef hann hefði legið þar í blóði sínu deyjandi, svo mikinn beyg höfðu þau þá á honum. Og fannst slæmt að við bræðurnir værum í slagtogi við mann sem vann ekki neitt og drakk alla daga vikunnar. En sumt fólk breytist. Og nær að rétta úr kútnum. Og uppsker jafnvel virðingu samborgara sína í leið. Það eru ekki mörg ár síðan við feðgar skrifuðum sitthvort bréfið fyrir Serbann sem fékk diplómu um að vera íslendingur í staðinn. Og nú er hann víst orðinn nær daglegur gestur á heimili foreldra minna og fær kaffi og aðstoð og ræðir um myndlist við föður minn þegar þeir hafa lokið störfum sínum. Sem minnir mig á það að einu sinni gaf ég pabba tvær númeraðar grafíkmyndir, frekar stórar, eftir þennan sama Serba. Þær voru báðar með sama þema. Tvær konur að híða hvor aðra í mismunandi stellingum. Held að þær séu úti í bílskúr hjá pabba ásamt eflaust svona tvöhundruð myndum öðrum (flestar eftir hann og bróðir minn) sem enginn hefur pláss fyrir og enginn veit hvað á að gera við.
Athugasemdir
Ég þarf að fara að grafa í grafíkskúffunni minni upp í skóla og senda á listfræðinema myndir af verkum. Ég vildi að maður hefði endalaust pláss og gæti hengt endalaust upp á veggi hjá sér, ég veit ekki hvað ég á að gera við mikið af mínu.
Ragga (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 16:43
Endar það ekki bara í einhverjum bílskúr eins og elstu verk bróðir míns og fleiri óskilda okkur sem hafa dagað upp föður mínum til gremju og plássleysis?
Kreppumaður, 3.4.2008 kl. 17:14
Í fyrsta skipti sem ég heimsótti vinnustofu málarans Helga Þorgils sem er með eindæmum vinnusamur og alltaf að þá ráðlagði hann mér að leigja mér geymslupláss ef ég ætlaði að mála því ég myndi að öllum líkindum sita uppi með hrúgu, hans vinnustofa er nógu troðin og næstum því á stærð við íbúðina mína.
Kannski eitthvað til í þessu hjá honum.
Ragga (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 17:24
Bróðir minn er mjög vinnusamur. Vinnustofan hans er stöppuð og minnir á myndlistar ruslahaug. Og svo er hann með verk í geymslu út um allan bæ. Ég er til dæmis með í geymslu hjá mér nokkra rúllur af verkum á striga sem hefur bara verið rúllað saman til geymslu. Og svo gleymist þetta og finnst ekki fyrr en eftir mörg ár. En svo eru til menn sem eru svo latir eins og einn vinur minn sem notar vinnustofuna sína til þess að spila tölvuleiki og drekka. Þar er alltaf sama verkið á trönunum, hálfklárað.
Ég er feginn að ég er ekki myndlistamaður, ég mundi grafast undir eigin sköpun og ekki finnast aftur.
Kreppumaður, 3.4.2008 kl. 17:34
Ég er nefnilega ein af þessum vinnusömu, alltaf að. Ég hef samt ekki málað lengi en þessa dagana klægjar mig í puttana, mig langar svo að mála en ég fór ekki í málara kúrsinn, ég fór frekar í það að vídeótaka ókunnuga að spæla egg, já, ég safna þó ekki drasli í geymslu á meðan!
Ragga (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 17:39
Nei tölvan þín er þá bara full af spældum eggjum.
Mér finnst list besta leiðin til þess að flýja raunveruleikan. Hvort sem ég er að gera eitthvað sjálfur eða bara að njóta. Fallegt málverk getur gert meira fyrir mig en flaska af góðu víni.
Kreppumaður, 3.4.2008 kl. 17:43
Já það er nefnilega málið að verkið er ekki eftir mig, ég er að vinna annars listamanna verk sem mun enda í lok árs í Hafnarhúsinu, hvort sem það verða spæld egg eða eitthvað annað, það kemur í ljós en engu að síður er þetta hellings gefandi þó svo að ég sé ekki að gera þetta fyrir mig, læri slatta en ég held ég stelist til að mála með.
Ragga (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 17:54
Ég held að maður læri mest á því að vinna með öðrum. Ég lærði mikið í denn þegar ég vann náið með ákveðnum leikstjóra að tveimur sýningum. Lærði að ég var ekki upphaf og endir alls. Og að betur sjá augu en auga. Og að meira að segja í listinni er pláss fyrir málamiðlanir. Ég lærði eiginlega svo mikið að ég hætti að skrifa fyrir aðra en sjálfan mig.
Kreppumaður, 3.4.2008 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.