3.4.2008 | 17:57
Um meyjarhöft
Nú ert allt tilbúið fyrir máltíðina nema ég sem einhverja hluta vegna er að fara á taugum. Það er ekki eins og ég sé í fyrsta skipti að fá stúlku í mat. Ætti að vera fyrir löngu kominn yfir stefnumótaskjálfta. Ég er eins og smápíka sem staulast heim undir morgunn og hefur glatað því sem bara einu sinni verður glatað. Og er því full af eftirsjá. Ég er fullur af eftirsjá. En ég veit ekki hverju? Kannski á maður ekki að vera að hlusta á lög sem heita The Death of love? Kannski er ég fullur af eftirsjá af því að meyjarhaft bernsku minnar var rofið með ótímabærum dauða? Og ég náði aldrei að segja neitt eða kveðja? En geta 18 ára gamlar minningar haft áhrif á stefnumót? Eða er það bara það að ég ber alltaf fólk saman við aðra og sá samanburður verður alltaf óhagstæður því að þeir sem hafa komið og farið, fegrast og miklast í minningunni? Mig langar mest til þess að stinga af. Láta mig hverfa. Fela mig á bókasafni eða bar. Ég hef einn og hálfan tíma til þess. En ég veit að ég mun ekki gera það. Heldur sýna karlmennsku (ef ég á hana til) og þrauka þetta kvöld. Og svo nótt með minningum um hversu allt var fallegt og gott þegar ég var táningur og helstu áhyggjurnar voru það að ná blessuðu stúdentsprófinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.