Um brýr og dauða (úr óbirtu handriti bernsku minnar)

Man það var brú yfir á og brúnni miðri hékk jesús á krossinum og starði út í iðandi flauminn og í rökkrinu voru fáir á ferli á þessari brú. Einungis elskendur sem héldu utan um hvort annað og við sem gengum á milli styttnanna á handriðinu, reykjandi þögul og stefndum að ljósunum handan árinnar. Og er við gengum framhjá frelsaranum leit ég upp á hann til þess að athuga hvort að það blæddi undan þyrnunum. Og ég tók eftir því að hún staðnæmdist, beygði sig niður og athugaði skó sinn og ég leit á hana og sá útundan mér að á dökkri ánni kviknuðu ljós á nokkrum bátum og þeir runnu í þögn að brúnni og ég snéri mér við um leið og þeir sigldu undir hana og kleif upp á brúarhandriðið og hélt mér í kross guðssonarins og skyggðist yfir í svart vatnið og sá þá koma undan brúnni, þéttsetna dökkklæddum mannverum og um leið og fyrsti báturinn kom í ljós kviknaði á kyndlum sem festir höfðu verið við hann og fólkið í bátnum tók fram hljóðfæri og renndi bogum yfir strengi og dapurlegir tónar bárust í kvöldþögninni. Og ég og jesús horfðum á eftir þeim fljóta niður ánna þangað til að hún blandaði rödd sinni tónum næturinnar, tónum árinnar og hvíslaði: getum við haldið áfram?

Við höfðum verið á tónleikum á eyju í miðri ánni. Bakkarnir umhverfis eyjuna voru fullir af upplýstum höllum í barrokkstíl, minjar löngu gengis heimsveldis. Og þegar tónleikarnir náðu hámarki með því að radiohead kom fram var hún orðinn svo drukkinn að hún hafði ælt yfir skónna sína og vildi komast heim á hótel. Og þegar við gengum yfir brúnna frá eyjunni í átt að flóðlýstri höll, þá leit hún á mig og spurði þvoglumælt: Heldurðu að þú elskir mig líka árið 1998? Og ég sleppti hönd hennar og leit við og sá upplýst sviðið og iðandi þvöguna og heyrði thom york syngja: Kil me sarah, kil me again, whit love, its gonnabe a glorius day... Og svaraði án þess að taka augun af mannþvögunni sem sveiflaði kveikjurum og hoppaði upp og niður: Það er langt þangað til.

Um leið og dimmdi birtust þær, ein og ein undir brúnni, vændiskonurnar, líkt og þegar ein og ein stjarna kviknar á svörtum himni. Og þær stóðu fáklæddar við veginn og yfir þeim æddu bílar og framhjá þeim æddu bílar og þær voru með hárgreiðslur sem ég hafði ekki séð síðan ég var þrettán ára og signir rassarnir voru ekki huldir neinu nema g-streng og belti og ég fann að hún herti takið um hönd mína er við gengum undir brúnna þar sem þær gerðu sig út og hún spurði: finnst þér þær fallegar? Og ég leit á hana og horfði í dökk augun sem voru óvenju stór í nóttinni og svaraði: fegurri en nokkur stjarna!
Og við stöðvuðum bílinn á miðri brúnni og ég steig út og horfði ofan í flauminn, hvernig vatnið gróf sig niður í gegnum klettanna og frussaðist af miklum krafti ljósblátt og hvítt í gegnum þennann flöskuháls sem gilið var. Og hún gekk að mér og hallaði sér með mér yfir handriðið sem brakaði í við þunga okkar beggja og tók hönd um mitti mitt og leit á mig og í brúnum augum hennar var einhver spurning sem ég vissi að hún gæti aldrei borið upp en samt sagði hún: hvað ertu að hugsa? Og ég svaraði: Um jökulinn sem æðir undir okkur og hún tísti og og brosti og sagði: það er sama hvað ég spyr að, aldrei fæ ég svar. Og ég tók utan um hana og við hölluðum okkur og horfðum á vatnið frussast áfram á ferð sinni til sjávar og ég sagði: Þú berð aldrei upp réttu spurninguna!

Og handan brúarinnar reis ein af þessum kirkjum sem bera nafnið; vor frúar kirkja, og við leiddumst yfir brúnna í heitu kvöldinu og hún spurði: hversvegna elskuðumst við ekki í dag? Og ég svaraði: það er of heitt til þess að elskast. Og hún sagði: veistu að þeir hafa múrað hauskúpur allra í söfnuðinum inn í veggi kirkjunnar? Já, svaraði ég, ég las líka bæklinginn. Og við stóðum fyrir framan rökkvaða gotneskabygginguna og horfðum til himins, engar stjörnur í nóttinni, bara ufsagrýlur rekandi út úr sér tunguna með sálir dauðlegar manna í klónum sem störðu niður á okkur og ég fann að hún svitnaði í lófanum er hún spurði: ertu hættur að elska mig? Þú hefur ekki sofið hjá mér lengi! Og ég svaraði: hugsaðu þér alla vinnuna sem liggur í þessari kirkju!

Á brúnni sleit hún drukkin handartak okkar og datt þannig að kjóllinn flettist upp um hana og þeir sem gengu hjá gátu séð að hún var í sokkum en ekki sokkabuxum og svo litlum nærbuxum að þær huldu varla neitt og þarna lá hún, hávaxinn og svo grönn og dökkt hárið breiddist út eins og vatnslitur á blaði sem drekkur hann í sig. Og ég teygði mig eftir hönd hennar og hún umlaði: ég hata þig, þú ert svo kaldur! Og ég sagði: nei, ástin mín, við erum bara á vitlausum stað. Og hún tók í hönd mína og horfði á mig, grimmilegum svip og ég sá að það var komið gat í annan sokkinn hennar og hún sagði: ég þoli ekki þessa brú, þessa helvítis borg. Og ég sagði, við förum heim og þá verðu allt gott. Og hún faðmaði mig og ég strauk bak hennar og hvíslaði: þessi brú og við...

Ég vissi ekki hvar hún var en grunaði að hún hefði farið aftur á hótleið. Ég hafði ráfað um og reynt að muna hversvegna okkur hafði lent saman. Ég var ekki viss? Það var að morgna og með morgninum barst þoka frá upp með ánni og helgimyndirnar á brúnni tók á sig óræðarmyndir og ég gekk hægt um á milli þeirra og leit í líflaus augu postulann eins og ég biði þess að lesa úr þeim eitthvert svar. Sá að á móti mér kom hópur kuflklæddra manna, munkar og þeir söngluðu: Drottinn gef mér tár, sundurkremdu hold mitt, láttu mig alltaf hugsa um dauðann, Drottinn gef mér tár, sundurkremdu hold mitt, láttu mig alltaf hugsa um dauðann, Drottinn gef mér tár, sundurkremdu hold mitt, láttu mig alltaf hugsa um dauðann...

Og þarna á brúnni með himininn fljótandi yfir mér og undir mér, snéri ég mér við og hljóp. Hljóp í gegnum þröngar fornar götur og yfir breið torg, framhjá grafreitnum þar sem Kafka lá, fram hjá fornum klukku sem sýndi stjörnur og tungl, þangað til ég kom að hótelinu og sá að hún stóð á svölunum, hallaði sér fram á handriðið og rýndi út í morguninn, reykjandi. Og ég vissi að við hefðum þetta af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergur Thorberg

Góður að vanda. Þeð því besta sem ég les þessa dagana og er þó töluvert lesið. kv. Thorberg

Bergur Thorberg, 5.4.2008 kl. 12:10

2 Smámynd: Kreppumaður

Takk Bergur gleður mig að einhver hafi gaman að því sem ég ´geri.

Kreppumaður, 5.4.2008 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband