Nokkrar myndir frá rigningasumri (úr óbirtu handriti bernsku minnar)

Og ég er lítill drengur og það er sumar en samt rok og helli rigning úti og svo mikill vindur að trén í garðinum hjá afa og ömmu sveigjast og snerta næstum jörðina.  Og það er eins og eitthvað fari yfir, hratt í þessum þungbúnu regnskýjum.  Eitthvað stór og mikið sem minnir má á hugmyndir um tilvist reiðs guðs.  Ég fer ekki út, ligg á maganum á stofugólfinu og fletti hundgömlum Vikum.  Les teiknimyndasögurnar og einstaka frásagnir af sjávarháska og mannáti.

Pabbi minn er stór.  Hann getur stokkið yfir grindverkið sem skilur að bílastæðið hans afa og stóra túnið hinum megin.  Hann þarf ekki að klifra yfir það með hjálp steins eða spýtu eins og ég.  Hann er í brúnum leðurjakka og með klút um hálsinn.  Mér finnst hann vera svo stór og fullorðinn en hann er samt bara 25 ára og leiðir mig yfir götuna til þess að kaupa djúpsteiktar franskar kartöflur til þess að hafa með matnum.  Bara tveir staðir í Reykjavík selja svona hnossgæti í gegnum lúgu og það myndast alltaf löng biðröð fyrir framan þær þessi sumarkvöld.  Síðar á ég eftir að sjá svona langa biðröð fyrir utan tónleikahallir og Knattspyrnuvelli.

Pabbi minn fer á sjóinn á sumrin þegar hann er ekki að kenna.  Og einhvern morgun bíðum við mamma í græna fólksvagninum sem hefur ekki neitt breyst í útliti síðan Hitler hreyfst af honum.  Og sólin er að koma upp og á bryggjunni er framandi lykt og ég horfi út um bílrúðuna, geispandi, á ryðgaðan bát og mann sem situr á bryggjupollanum og reykir.  Hann brosir til mín og veifar.  Það vantar í hann nokkrar tennur það set að mér beygir við að sjá þennan mann með sígarettuna og sinn úfna og gráa haus.  Og það hvarflar að mér að hann sé kannski sjóræningi eða einn af þessum skipbrotsmönnum sem eftir vatns og matarleysi á opnum bát, draga strá um það hver eigi að fórna sér svo hinir megi lifa.

Sit í saghrúgu á verkstæðinu hans afa.  Er að tálga mér hníf.  Stóra hurðin er opin og það rignir ofan í mölina.  Það er risa pollur fyrir utan hurðina og þar ætla ég að sigla skipum þegar það styttir upp en núna er ég upptekinn af því að tálga og gefa karlinum sem sagaði af sér puttann auga.  Það vantar á hann þrjá fingur og ég veit að það hafði liðið yfir hann inni á kaffistofu þegar afi kom að honum og hann var næstum hættur að anda og afi keyrði hann í snarhasti á spítala og kom svo aftur til þess að sópa verkstæðið og leita að fingrunum.  Þess vegna passa ég mig vel með hnífinn því að mig langar ekki að missa framan af putta.  Mig langar ekki til þess að missa neitt.

Og þegar það styttir upp um kvöldið förum við út í fótbolta.  Við erum báðir í eins stuttermabolum, ljósbláum með áletrun á útlensku.  Og gerum mörk ur peysunum okkar og ég reyni að skjóta eins fast og ég get með þeim afleiðingum að ég missi af mér skóinn.  Pabbi hlær að mér og mér sárnar það því að ég ætlaði að sýna honum hvað ég get skotið fast og fyrir mér er þessi kvöldstund ónýt og mér fer fljótlega að leiðast fótboltinn svo pabbi tekur hann undir höndina og leiðir mig niður í móann þar sem rústir af gömlum húsum og grunnum standa og þar setjumst við niður í beði af fíflum og hann segir mér frá því hverjir bjuggu í kofunum þegar hann var strákur og að einn karlinn sem bjó í einu húsinu drakk mikið og hann og vinir hans voru oft að atast í honum og fá hann til þess að elta sig.  Þá kom hann hlaupandi út, rauður í framan í bol og með axlabönd, berfættur í klossum og einu sinni steyptist hann á hausinn ofan í rabbbarabeði, eitt sumarkvöldið og stóð ekki á fætur aftur og þegar pabbi og vinir hans fóru að athuga með hann hafði hann sofnað.

Ég stend með lítinn bala fyrir aftan ömmu og hún týnir ribsber af trjánum og setur í balann og ég er alltaf að líta í kringum mig eftir lúsum, kóngulóm eða öðrum hræðilegum ófreskjum sem leynast í öllum gróðri og bíða þess eins að sleppa í hárið á manni eða niður um hálfsmálið á peysunni.  Og þegar ömmu finnst hún vera komið með nóg segir hún að nú förum við inn og hún ætli að gera sultu og saft.  Síðar, löng síðar, á ég eftir að brugga vín úr berjum af þessum sama runna og koma til ömmu minnar með nokkrar flöskur.  Þá var líka sumar og við sátum úti í gróðurhúsi og dreyptum á víninu og amma fann á sér eftir hálft glas því að hún er óvön drykkju og fór að segja mér frá bandaríska hermanninum sem hún var skotinn í áður en hún hitti afa.  Og svo lygndi hún aftur augum, dreypti á víninu og hvíslaði:  Svo hitti ég hann afa þinn og nafna og hann var svo myndarlegur og brosmildur að það komst ekkert annað að en að giftast honum.

Og á laugardögum förum við stundum feðgarnir, oft í bíó, til að gefa mömmu smá frið en því miður oft á listsýningar.  Sali þar sem málverk af einhverju sem lítur út eins og fólk eða hús eða langslag, hangir á veggjum en er samt ekki myndir af neinu finnst mér.  Og pabbi setur hendur fyrir aftan bak og gengur á milli myndanna og horfir á hverja einustu þeirra lengi.  Og svo spjallar hann við fólk á sýningunni.  Oftast einhverja gamla karla sem hann segir mér síðar að séu miklir meistarar.  Og ég man eftir einni sýningu þá lítur hann að mér og hvíslar um leið og hann bendir varlega á gamlan karl með skrítna húfu sem heldur á vindli og hlær:  þetta er nú Laxness!  Og yfir nafninu hvílir dulúð, því að þótt að mamma beri ættarnafn þá er það erlent og minnir ekki á skip.

Ég sit fyrir framan sjónvarpið og er að borða popp og horfa á John Wayne í svarthvítu eltast við indíána í ofboðslega þröngum riddaraliðsbúning.  Og fjöll eyðimerkurinnar eru gróðurlaus.  Það eru ennþá krakkar úti á túni að spila fótbolta eða að hlaupa í skarðið.  Vinur pabba og mömmu er í heimsókn.  Konan hans er ekki með honum.  Þau koma oft með dóttur sína sem er jafngömul mér.  Við leikum okkur þá saman.  En núna er hann einn og þau eru að drekka rauðadrykki úr dökkum flöskum og tala saman í hálfum hljóðum.  Stundum lítur mamma mín til mín eins og hún óttist að ég sé að hlusta.  Og rétt áður en myndin er búinn er hringt á bjöllunni og skömmu síðar kemur inn dökkur maður segir eitthvað á útlensku og brosir svo bara.  Og þegar vinur pabba og mömmu sér hann stendur hann á fætur og faðmar hann og kyssir á báðar kinnar.  Mér finnst það svolítið skrítið en ég er svo mörgu vanur frá þessum manni.  Hann fer til dæmis alltaf úr sokkunum þegar hann kemur í heimsókn.  Honum þykir teppið víst svo mjúkt.  Og þegar hann og útlendingurinn er farinn og ég lagstur upp í rúm og er alveg að fara að sofa, heyri ég í foreldrum mínum vera að vaska upp og tala um að það sé synd að hann hafi farið frá konunni sinni vegna útlendings.  Og það slær mig slíkur ótti að pabbi kunni að taka upp á því líka, að yfirgefa okkur mömmu, fyrir útlending, að í stað þess að dreyma John Wayne og indíáni, dreymir mig dökkan mann með gullkeðju og hvítt glott.

Herbergið mitt er gult og rúmið mitt er blátt.  Og ég er búinn að fara í bað og það er hreint á rúminu og ég er með bækur til þess að skoða og reyna að stauta í og það er rigning eins og alltaf fyrir utan gluggann minn og ég heyri dropana smella á stéttinni og allt í einu sitja þau bæði á rúmstokknum hjá mér, foreldrar mínir og pabbi heldur utan um mömmu og hún strýkur mér niður kinnina og segir að bráðum breytist allt, ég verði ekki alltaf einn, ég muni brátt eignast bróður eða systur.  Og ég veit ekki hvað ég á að segja, reyni bara að þykjast lesa og stauta upphátt einhverja vitleysu.  Og mamma kyssir mig og þau fara og halla hurðinni.  Ég heyri að þau eru að tala saman inni í stofu.  Ég legg frá mér bókina og finnst eins og ég sé með kökk í hálsinum.  Brátt verður allt breytt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband