7.4.2008 | 21:51
Vetrarnætur, sumarnætur (úr óbirtu handriti bernsku minnar)
Og um nóttina fórum við í úlpurnar okkar og leiddumst út í storminn. Gengum meðfram hafinu með snjóinn í fangið, þegjandi, bara fingur okkar krækta saman. Engin skip sigldu inn fjörðinn þá nótt.
Um leið og vindinn fór að lægja og snjókornin urðu færri og færri, strjál eins og lauf á hausttré, komum við að gamla vitanum og staðnæmdumst þar. Stóðum hönd í hönd og horfðum á brimið í fjarska. Og hún sagði: við ættum að gera þetta oftar. Fara og njóta þess að vera bara tvö ein með hafinu. Og ég leit á hana og brosti yfir þessari tilgerðarlegu athugasemd en sagði ekki neitt, þótt að mig langaði að segja eitthvað um æsku hennar. Svo héldum við til baka, haldandi um bak hvors annars og vindurinn ýtti hettunum á úlpunum niður á höfuðin.
Þegar við komum inn kveikti hún á kertum og ég sá að klukkan var að verða 3. Hún fór úr blautum gallabuxunum og stóð fyrir framan mig á nærbuxum og alltof stórri lopapeysu og sagði: hitaðu kaffi, opnaðu vín, fyndu sígarettur. Og ég skottaðist inn í eldhúsið í gallabuxum klesstum við fótleggi mína og setti ketilinn á hellu: instant kaffi og vín sagði ég!
Og ég man að við settumst á stofugólfið í skini kerta og settum teppi yfir kaldar lappir okkar, sátum þarna og supum á drykkjunum og tónlistarmaður sem síðar átti eftir að drepa sig þó ekki með byssu, söng angurvær lög og við skiptumst á að tala: um bækur og um tónlist og um okkur og þennan vetur og hvað sumarið mundi bera í skauti sér og öðru hvoru teygði ég út hönd og strauk yfir snoðað höfuð hennar og hún brosti þá alltaf svo undurfurðulega, eins og ekkert skemmti henni meira en þetta tilgangslausa klór mitt. Og hún sagði um leið og hún fór úr peysunni og lagði hana á gólfið svo ég sá að hún var í alltof þröngum stuttermabol, bláum eins og mín eigin augu: við skulum vaka í alla nótt og tala, það er svo langt síðan við höfum gert það! Og við lögðumst á bakið með glösin og bollana við hlið okkar og hún lagði höfuðið á bringu mína svo ég gat klórað í snoðuðum kolli hennar og við hvísluðumst á þangað til síðasta kertið slokknaði.
Og þegar rökkvaði og trén fyrir utan sumarhúsið urðu að einhverjum dansandi skuggum sem minntu helst á óvætti í hringadróttinssögu og síðasta kertið vara að deyja út, breiddi hún teppi á gólfið fyrir framan kamínuna og sagði: við skulum sitja hérna. Og ég færði mig til hennar með bók og glas og settist eins og indíáni með fæturna undir mig og rýndi í letrið og hún bað: lestu! Og ég leit á hana og horfði á hana strjúka með fingrunum eftir brún glassins með muninn hálf opinn svo að tennurnar skinu í bjarmanum frá eldinum í kamínunni og byrjaði að lesa. Með þessari mónótónísku sálfræðirödd sem ég hafði fyrir löngu tamið mér í upplestri og viðtölum við skjólstæðinga. Og hún lagðist með hönd undir kinn og lygndi augunum og umlaði: það er byrjað að snjóa, vonandi verðum við bara veðurteppt hérna. Og ég sagði: vonandi í tvö ár. Og hún hló og spurði: yrðir þú ekkert leiður á því? ,,Ekki á þér, en kannski þessari bók!"
Hún lá á bakinu og hjólaði út í loftið með löppunum og ég horfði á þessar æfingar hennar og hlustaði á gnauðið í vindinum sem yfirgnæfði lágværa tónlistina. Loks hætti hún að hjóla en lét lappirnar bara vísa til himins og leit á mig þessum fallegu brúnu augum og spurði: hversvegna ertu svona upptekinn af samskiptum konu og manns? Og ég gretti mig og teygði mig í sígarettu og stakk henni ótendraðri á milli varanna og umlaði loks: það er eitthvað svo fallegt við konu og mann sem deila öllu því sem þau hugsa og gera saman. Jafnvel þótt að á endanum þurfi þau að kveðjast. Og hún byrjaði aftur að hjóla og lyfti rassinum frá dýnunni og spurði hugsi: heldurðu að það hendi okkur? Að kveðjast? Ég snéri mér á magann og kveikti í sígarettunni, fann öskubakka á gólfinu og lagði sígarettuna þar og sagði um leið og ég blés frá mér reyknum: vonandi ekki, þetta er svo ágætt! Og hún beygði sig yfir mig og ég fann fyrir líkama hennar á baki mínu, teygði sig í sígarettuna og reykti. Sagði svo: ef við ætlum ekki að kveðjast, þá verðum við að hætta að reykja. Og ég bætti við hlæjandi: nú er komin ástæða fyrir því að þetta nær ekki lengra. Hún sló mig létt með flatri hönd á kollinn og sagði: rugludallur, það ert ekki þú sem ákveður hvenær þetta samband endar, heldur ég!
Fyrir tilviljun lentum við í sætum hlið við hlið á bar með fullt af sameiginlegum vinum. Sama bar og við höfðum kynnst á ári fyrr. Og hún brosti til mín, feimnisleg og sagði: hæ ....! Og ég sagði: hæ. Og hún leit af mér og tók sopa af bjórnum sínum og mér leið svo furðulega innra með mér. Fannst um leið að allt væri sem áður og við værum brátt að fara að leiðast heim til hennar í gegnum myrka borgina í hlýju hauströkkrinu. En ég snéri mér við og fór að tala við bróður minn um eitthvað sem engu máli skipti. Tónlist eða myndlist eða gamla bók með hlandlykt af sem hafði að geyma fornan sannleik. Þangað til ég fann hönd hennar á armi mínum og snéri mér að henni og sá að hún brosti til mín og augu hennar voru dekkri en mig minnti að þau hefði nokkurn tíman verið og hún spurði: manstu þegar við gengum út að vitanum í vetur? Og ég brosti og sagði: hvernig gæti ég gleymt! Og hún bætti við: alltaf þegar ég er döpur hugsa ég um þá ferð og nótt. Og líka þegar við kvöddumst og þú hélst utan um mig og ég man hvað mér þótti vænt um þig þá. Og ég sagði áður en ég saup á bjórnum mínum: ég hugsa stundum um þessa ferð líka. Og hún tæmdi bjórinn sinn og stóð á fætur, klæddi sig í stuttan leðurjakka og gekk að dyrunum. Staðnæmdist þar og snéri sér við og við horfðumst í augu. Uns bróðir minn hallaði sér að mér og hvíslaði: nei, nei! Þá leit ég undan og ruglaði hárinu á bróðir mínum og þannig leið nóttin.
Og nóttin hafði liðið og ég stóð í skini sólar sem var nýkominn upp yfir haffletinum og hvarvetna var ennþá fólk inni á skemmtistöðum þótt að morgun væri og frá lækjartorgi bárust hlátrarsköll og brothljóð og því laust niður í huga mínum að aðeins með henni fengi ég frið. Og ég tók á rás, hljóp niður laugaveginn eins og að fellibylur væri á hælum mér sem væri skip að leita vars í einu öruggu höfninni sem væri faðmur hennar. Og ég staðnæmdist ekki fyrr en fyrir utan húsið sem hún bjó í. Lagðist á bjölluna en ekkert gerðist og í örvæntingu minni byrjaði ég að klífa brunastigann sem lá upp á þak, vissi að þakglugginn á klósettinu væri alltaf opinn. Og ég kleif, hratt þrátt fyrir að vera ofurölvi. Og á sleipu og bröttu bárujárnsþakinu rann ég tvisvar og bara heppni hins drukkna manns bjargaði mér frá 12 metra falli. Og inn um gluggann tróð ég mér með höfuðið á undan. Það var ekki fyrr en ég stóð á baðherbergisgólfinu hennar og sá allar snyrtivörurnar í hillum undir speglinum og mig rauðeygðan fyrir aftan þær að það hvarflaði að mér að kannski væri einhver hjá henni? Eða að hún væri hjá einhverjum? Og ég hugsaði: nú fer ég sömu leið og ég kom. Þá opnaðist hurðin á salerninu og hún stóð í gættinni á nærbuxunum einum fata með hendur krosslagðar yfir nöktum brjóstunum og sagði: Þú ert eini maðurinn sem ert nógu geggjaður til að gera svona! Ég leit á skó mína og svaraði lágt: ég veit, ég er ekki í lagi, fyrirgefðu, fyrirgefðu mér allt. Og svo tók hún utan um mig og ég fann ilminn af hári hennar...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.