Að nenna að vera til?

Ótrúlegt hvað það breytir Íslendingum að það skíni smá sól.  Laugavegurinn allt í einu fullur af fólki sem var ekki að flýta sér og það sást jafnvel votta fyrir brosviprum á einstaka manni og konu.  En auðvitað ekki mér, til þess er ég alltof kúl, enda fel ég líka augun bakvið sólgleraugu flesta daga ársins, nema þegar það rignir eða snjóar of mikið.  Rakst á gamla kunningjakonu mína, við eigum furðulega fortíðarsögu saman sem hún á tímabili lét bitna á systur minni.  Og það var eflaust eitthvað samviskubit sem fékk hana til þess að spyrja mig hvernig systir mín hefði það og hvað hún væri að gera?  Hún spurði ekkert um það hvernig ég hefði það eða hvað ég væri að gera enda hefði ég eflaust líka bara svarað út í hött.  En hún sagði mér án þess að ég þyrfti að spyrja að hún byggi handan hafsins með manni.  Við kvöddumst þurrlega og ég velti því fyrir mér á meðan ég saup á vondu kaffi hvers vegna hún hefði haft fyrir því að stoppa mig?  Hún hefði alveg getað látið það duga að segja hæ? 

Langaði ekki heim og stoppaði því fyrir utan gluggann á hverri einustu verslun á leiðinni og skoðaði í gluggann.  Keypti mér reyfara í Máli og Menningu.  Reykti sígarettu á gatnamótum og horfði á fólk.  Velti því fyrir mér í hálfa mínútu að hringja í einhvern kunningja minn og fara á bar en hætti við nánast samstundis, er í heilsuátaki og svo búinn að gera mér upp fólksfóbíu eða réttara sagt barfóbíu sem á að endast þangað til drengurinn verður fermdur.

Kom heim og horfði á hlaupaskónna, ætla þó ekki að skokka aftur fyrr en á morgunn til þess að ofgera mér ekki, alla veganna ekki fyrstu vikuna.  Opnaði ísskápinn.  Það er til nóg í salat og til þess að verðlauna mig fyrir staðfestuna fékk ég mér bjór.  Er þó ekki svangur en verð það vonandi á eftir.  Og núna sit ég bara og velti því fyrir mér hvort ég eigi að skrifa, hvort ég eigi yfir höfuð að nenna að vera til, hvort ég sé einhverjum til gagns? 

Stundum þoli ég ekki þetta helvítis tilvistarvæl mitt.  Og bölva öllum heimspeki áföngum sem ég hef tekið um ævina.  Án þeirra væri ég eflaust bara lukkulegur hagfræðingur... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Iss, gleymdi heilsuátakinu og settist í bjór að loknum skóladegi, sólin hafði þau áhrif á okkur stelpurnar, næs.

Ragga (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 18:27

2 Smámynd: Kreppumaður

Sammála.  Ég held að ég opni jafnvel eitthvað meira enda kominn í stuð, það er verið að syngja eitthvað um niggz á svölunum fyrir neðan mig.

Kreppumaður, 10.4.2008 kl. 19:04

3 identicon

Ég hafði ætlað að plata vinkonu með mér á barinn í kvöld, hún beilaði og því fór ég heim. Plata hana út annað kvöld í staðinn.

Dagurinn búinn að vera svo súr, spæld egg eru ekkert miðað við þennan, verst hún skyldi missa af rausinu í mér. 

Ragga (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 19:08

4 Smámynd: Kreppumaður

Gældi við barhugmyndi í 30 sek en mundi barbindindi fram yfir fermingu, þótt að maður viti að ístöðuleysið getur breytt öllu.  Annars finnst mér allir barir vera orðnir svo leiðinlegir að það er ekki margt sem fær mig til þess að langa út á þá...

En ég er orðinn mjög spenntur fyrir spældu eggjunum.  Þetta hlýtur að verða magnað verk.

Kreppumaður, 10.4.2008 kl. 19:12

5 identicon

Spældu eggin eru víst dottin upp fyrir því miður því mér þótti þetta frekar spennandi. Í staðin hef ég rannsakað hafnarsvæðið og ég veit ekkert hvað úr því verður, ennþá.

Barinn datt upp fyrir, gleymdi að ég hafði lofað mér annað. 

Ragga (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 19:14

6 Smámynd: Kreppumaður

Hafnarsvæði eru snilld.  Ég elska hafnir og báta og slor á bryggjum.  Og skrítna karla í slitnum lopapeysum sem híma reykjandi og hrækjandi.  Svo er líka alltaf verið að henda fullum Pólverjum í sjóinn...

Kreppumaður, 10.4.2008 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband