10.4.2008 | 19:02
Nokkur orð um Michael Strunge
Þegar ég var rúmlega tvítugur kynntist ég ljóðum Michaels Strunge (1958-1986) og mundi allt í einu eftir honum þegar ég var að svara kommenti frá Röggu um daginn. Fáein ljóð eftir hann komu út í litlu kveri hérlendis sem hét Líkami Borgarinnar og deildi Strunge kveri þessu með Sören Ulrik Thomsen og ég held að Magnús Gezzon og Þórhallur Þórhallsson hafi þýtt ljóðin? Þessari litlu bók hef ég fyrir löngu týnt, því miður, því að hún er alveg ófáleg í dag.
Það sem heillaði mig við Strunge var ekki bara það að hann hafði kastað sér fram af svölum í amfetamínvímu, haldandi það að hann gæti flogið, heldur augljós tengsla hans við hljómsveitir frá þeim tíma sem hann var afkasta mikið ljóðskáld. Eins og the Cure, Echo and The Bunnyman, Strangles og Joy Division, end örlög Strunge og Ian Curtis söngvara þeirra sveitar þau að falla fyrir eigin hendi þegar heimurinn lá að fótum þeirra.
En þetta litla kver, Líkami borgarinnar, varð til þess að ég keypti nokkrar bækur eftir Strunge á dönsku. Bækur sem ég gróf upp um daginn og blaðaði í. Og fann fyrir smá sorg yfir örlögum Strunge því að á margan hátt var hann að fjalla um svipaða hluti og ég á þessu bloggi og gamla blogginu mínu sem nú er horfið inn í víðáttur netheima. Á einfaldan og auðskilinn hátt. Án þess að reyna eitthvað á tungumálið. Mörg ljóða hans eins og textar. Engin tilgerð. Ef einhver skildi rekast á áðurnefnda bók, Líkami Borgarinnar, látið mig þá vita hvar hægt er að nálgast hana! Plís. Og að lokum, stutt ljóð sem ég snaraði úr dönsku:
Ef þú ert sólin
þá er ég Merkúr
lítill og hringsólandi
brennandi eyðimörk geisla þinna
dauðþreyttur af eigin innblæstri.
Ef þú ert gull
þá er ég kvikasilfur
tætandi agnir á líkama þínum
fá þig til að iða, þú hvæsir
gríman fellur og afhjúpar reiði þína.
Þetta ljóð höfðaði alltaf mikið til mín. Er örlítið tvíræðara á dönsku en íslensku en ég efast um að allir séu dönskudúxar eins og ég svo að ég snaraði því í fljótheitum. Reyndar þýddi ég talsvert af ljóðum eftir Strunge fyrir svona 10-12 árum en tölvan sem geymdi þær þýðingar er fyrir löngu sofnuð til IBM feðra sinna.
Athugasemdir
Ef ég rekst á hana þá held ég henni fyrir mig!
Ragga (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 19:12
Þú ættir líka að gera það. Held að það séu svona 30 ljóð í henni og bókin er dökkblá og bara óljós mynd að höfundum aftan á (Strunge með hár eins og Robert Smith) og allt gert af vanefnum en ljóðin eru alveg frábær. Kannski get ég grafið hana upp hjá Braga á Klapparstígnum?
Kreppumaður, 10.4.2008 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.