Stundum dreymir mig

Stundum dreymir mig:  Flagnaða málningu, silfurskottur sem skjótast á milli óhreinna potta, nakta víra fyrir ofan sturtuna sem gneista um leið og heita vatnið fellur, blaut gólf, tómar flöskur, stútfulla öskubakka sem flóir út úr, rauð málverk af hengdum mönnum...

Stundum dreymir mig:  stúlku með ljósrautt hár og stór blá augu sem situr á rúmstokk og drekkur bjór, ekki klædd í neitt annað en grænan brjósthaldara og svo horuð og veikbyggð að ég hugsa að ef ég mundi snerta hana fengi hún mar.  Ekki sú fyrsta, ekki sú síðast af rauðhærðum konum.... Og hún réttir að mér flöskuna og brosir og hún er með húðflúraðan hrafn á upphandleggnum og ég stand fyrir framan hana ennþá svartklæddur með hárið ofan í augun og tek ekki við flöskunni.  Handan við þilið er fólk að slást yfir síðasta spíttskammtinum...

Stundum dreymir mig:  hann liggur á gólfinu nakinn í beltisstað og úti snjóar og götuljósin eru appelsínugul bakvið flygsurnar og gluggatjöldin hafa fallið af köppunum og niður á gólf og ég lít aftur á hann sem liggur á gólfinu og sé að hann liggur í polli og þefur af hlandi og stöðnu áfengi fyllir vit mín og ég sný mér við og tek upp símann og hringi og spyr: má ég gista hjá þér?

Stundum dreymir mig:  næstum fullt tungl og það er hætta að snjóa.  Nakin gömul tré og við göngum eftir stígnum sem liggur á milli húsalengjanna og það marrar undan okkur í nýföllnum snjónum og köttur sker leið okkar og við þegjum því að það er ekkert til þess að tala um lengur...

Stundum dreymir mig:  Ris og fyrir ofan rúmið hefur einhver sem heimsótti fyrrum leigjanda þessara íbúðar skrifað með blýanti á vegginn: ástin sefur laust!  Og ég hugsa um þessi orð löngu síðar þegar ég hiti hana sem sagðist hata mig á bar og áður en ég vissi hélt hún utan um mig og teygði andlit sitt á móti mínu...

Stundum dreymir mig:  Á ganginum tveir strákar í sleik, ég þekki þá báða og annar hefur sett höndina undir skyrtuna á hinum og þeir taka ekki eftir mér.  Og ég hugsa með mér hversu mikið e þeir hafi tekið þessa nótt og heyri í henni sem heldur í hönd mína flissa fyrir aftan mig þegar hún sér það sem ég er að horfa á...

Stundum dreymir mig:  Að ég standi ber á ofan í svörtum buxum inni í eldhúsi og þeir sitja þar naktir með handklæði um sig miðja og reykja og á milli þeirra er flaska með einhverju glæru í og úti rignir og það er sunnudagur og klukkan er að verða tvö og þeir líta á mig þegar ég kem inn í eldhúsið, silfurskottur flýja inn í öll horn, mygla á eldhúsborðinu, viðbrenndar matarleifar á eldavélini og annar þeirra segir varfærnislega: hvað sástu mikið í nótt?  Og ég lýg: átti ég að sjá eitthvað.  Fyrir aftan mig heyrist sagt: ég er farinn, hringi...

Stundum dreymir mig:  Slagsmál frami á gangi og ég vakna upp og það er aðfaranótt miðvikudags og öskrin eru eins og það sé verið að flá mann lifandi.  Ég ligg bara og hreyfi mig ekki.  Er fyrir löngu búinn að átta mig á því að í þessu húsi skiptir sér enginn að neinu. Lít á síman, sé að ég hef fengið sms:  þú veist útaf hverju ég kem aldrei í heimsókn til þín aftur?  Ég ligg og les sagnfræðibækur því ég get ekki sofnað, handa veggjarins er verið að berja mann með hamri...

Stundum dreymir mig:  Það er komið vor og allur þessi djúpi snjór fyrir löngu orðinn að slabbi sem svo lak ofan í ræsi og hvarf og það er sandur á stígnum og trén eru að fara að laufgast og hún bíður fyrir utan, hún kemur ekki oftar inn, eftir mér í kjól og stuttri kápu.  Og ég kem út og tek um hönd hennar í fyrsta skipti eftir alla þessa mánuði.  Og hún brosir til mín og segir: þetta er í fyrsta skipti sem við leiðumst!  Og ég svara: og það er meira að segja bjart!  Og ég veit að ég er að flytja og þessu verður öllu brátt lokið...

Stundum dreymir mig: að ég sé kominn tíu ár aftur í tímann og ég sé ennþá bara horaður hálfmaður, hvorki fullorðinn né barn. Og ég viti ekki hversvegna ég sé þarna.  Og ég viti ekki hversvegna það séu leifar af brotinni bjórflösku á veggnum fyrir aftan mig.  Ég veit ekki hver drakk úr öllum þessu tómu flöskum, ég þekki ekki manninn sem liggur á gólfinu, nakinn með handklæði um sig miðjan sem flest hefur upp svo sér í samanskroppin kynfæri hans.  Ég veit ekki hvort að þessir draumar séu partur af lífi mínu eða bara draumar sem mig dreymir þegar ég sakna þess sem var og verður aldrei aftur.  Þegar mig dreymir að lífið sé eitthvað meira en bara skuggar á vegg og brostnar raddir úr hátölurum.  Og orð.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband