15.4.2008 | 18:57
Öll þessi ást...
Stalst aftur út því að mig vanhagaði um eitt og annað úr búðum því að ekki borða ég nýhreinsuðu jakkafötin, þótt að þau bláteinóttu líti út fyrir að vera ætileg. Og á leiðinni, nánar tiltekið í portinu fyrir aftan Brynju þar sem félagi minn rekur eitthvað jaðarfyrirtæki sá ég stúlku og pilt kyssast áfergjulega eins og dagurinn í dag væri sá síðasti í þessari veröld. Og mér hlýnaði um hjartaræturnar við það að sjá þessa ást eða girnd í unglingunum (jæja segjum svona ca 25 ára) að ég táraðist næstum af fögnuði og fannst eins og á sömu stundu upplifði ég öll mín ástarævintýri í einu og bak við sólgleraugun birtust myndir af mörgum brosmildum stúlkum með blik í augum. Og ég næstum valhoppaði heim með aulalegt bros á vör sem var ekki í neinum takt við svart átfittið, sólgleraugun og þann venjulega fyrirlitningarsvip sem ég hef tamið mig á að setja upp þegar ég er innann um pöpulinn.
Og núna stend ég í eldhúsinu og hlusta á dramatísk ástarlög og sker niður epli sem ég ætla að steikja með fisknum og horfi út í portið þar sem einn Pólverji sitjur á tröppum með höfuðið á milli hnjánna og ælupoll og bjórdós fyrir framan sig og ég held að kvöldið í kvöld verði ekki eins hávært og vanalega þar sem helmingurinn af nágrönnum mínum virðist hafa dæmt sig úr leik, í bili! Og ég ætla að skála fyrir öllum þessum konum sem skilið hafa eftir sig varalit á rauðvínsglösum hjá mér í gegnum tíðina. Og ég ætla að skál fyrir öllu þessu unga fólki sem búið er að finna eitthvað sem það getur kalla ást. Og ég ætla að skála fyrir syni mínum og láta mig hlakka til þerrar stundar sem ég þarf að hugga hann í hans fyrstu ástarsorg...
Frá tölvunni berst örvæntingarfullur söngur: amphetamin thin with teen drinkers skin/and never stop to worry about mess that you are in...
Minnir mig á stolinn koss á N1 bar árið 1991 og granna stúlku með rauðbrúnt hár og dökk augu og pönkaraklippingu í alltof stórum leðurjakka og grænu pilsi. Og síðar sátum við fyrir neðan Sólfarið og deildum bjór og það var vor og hétum hvort öðru ævilangri vináttu. Nú hef ég ekki heyrt frá henni svo lengi...
En vorið er ekki tími fyrir endurminningar. Vorið er tími aðgerða og ásta. Alla veganna fyrir þá sem eru ungir og með opinn hug og tilbúnir að skemmast, brennast, særast, giftast, skilja og verða svo draugum að bráð...
Og á eftir vorinu. Á eftir vorinu kemur þetta ljúfa og stutta sumar með öll sín tækifæri og ævintýri. Ég ætla þegar ég kem heim frá Berlína að taka mér tíma til að skoða landið eins og í fyrra. Og liggja í votu grænu grasi hjá fossi sem úðar yfir mig dropum og heyra ekki neitt nema niðinn í vatninu...
Því að vorkoma á þessu skeri í Dumbshafi er ekki bara vorkoma, heldur örlítið kraftaverk sem vekur fólk úr dvala eins og þegar birnir skríða úr hýði. Og fólkið hér hungrar jafn mikið og magra birni, bara ekki eftir kjöti, heldur hamingju og ást.
Það er fegurðin við þetta land, þessa þjóð.
Athugasemdir
Flott færsla
Lilja Kjerúlf, 15.4.2008 kl. 19:11
Kannski jafnvel hægt að kenna vorinu um það?
Kreppumaður, 15.4.2008 kl. 19:15
Já sammála - ég verð bara agalega ástfangin af lífinu og öllu bara á því að lesa hana. Enda vitum við flest hversu auðveldari allar aðgerðir eru einmitt á vorin..;)
Gunnhildur Ólafsdóttir, 15.4.2008 kl. 19:28
Vorið er svo mikilvægt á Íslandi. Held að frá því að land byggðist hafi vorkoman verið tákn um það að fólk lifði af veturinn og hafði ekki soltið í hel eða orðið úti. Og í dag er það merki um það að við getum aftur farið að lifa, aftur farið að vera við sjálf og klæða okkur eins og við viljum án þess að verða úti á milli húsa!
Kreppumaður, 15.4.2008 kl. 19:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.