Memento mori

Stóð úti á svölum áðan og horfði yfir portið og naut þess að vera undir gráum vorhimni.  drakk Hennessy úr vatnsglasi eins og ruddi og hugsaði með mér að það væri gaman að blása sápukúlum og horfa á þær svífa yfir ruslatunnunum og ælupollinum sem annar pólverjinn skildi eftir sig í gær.  Rómantísk tónlist í stofunni og ég hvarf treglega aftur inn til þess að sinna helvítis skriftum en ég var víst skammaður fyrir leti og að virða ekki deadlines í dag. 

Og núna sit ég og blogga, endurskrifa og punkta niður.  Og set saman mail handa elsku systir minni í Berlín; eitthvað þunglyndislegt og dapurlegt og grátt um það að andadráttur borgarinnar sé þrunginn dauða og ég fái ekki sofið og bleikir skuggar leiki um þilið.  Já, stelum þessu öllu beint frá Hannesi og öðrum módernistum ef það fær litlu systur til þess að sakana mín minna...

Ég hugsa um forn þrep sem grikkir hjuggu í bergið á brattri og eyðilegri hæð fyrir 3000 árum síðan og mig að puða þangað upp í hvítri skyrtu og gallabuxum og svitinn fær fötin til þess að límast við mig en upp fer ég samt til þess að sjá minnismerki sem á var letrað á latínu:  memento mori!  Og ég horfði á þessa styttu af engli með útbreidda vængi og sverð og vogarskál, kominn eflaust til þess að dæma lifendur og dauða og strauk hendinni yfir áletrunina: mundu að þú ert dauðlegur...

Sólin hvarf bakvið ský.  Miðjarðarhafið varð samstundis grátt og ýfðist.  Það rigndi.  ég gekk hægt niður þrjátíu alda gömul þrepin og horfði á höfnina.  Haustið 1904 réðist hvíthákarl á mann sem var að draga net upp í lítinn bát og beit hann í tvennt.  Síðar réðist eflaust sama skepna á bát og hvolfdi honum, kona hvarf í hafið og sást ekki oftar.  Best varðveitta leyndarmál landana við Miðjarðarhafið, ókindurnar í djúpunum...

Og núna hugsa ég um þessa ljótu styttu og þessa áletrun: memento mori.  Hvað á ég að láta hana segja mér?  Að fara varlega?  Hætta að reykja og drekka, kaupa mér líftryggingu, skera fituna af kjötinu?

Mundu að þú ert dauðlegur! 

Ég veit það ekki?  Ég er bara þessi horaði hálfmaður.  Ekki maður og ekki strákur.  Ekki fullorðinn en þó ekki barn.  Og sit hérna í grárri birtu vorsins með sígaretturnar mínar og koníakið fyrir framan mig og símann.  Fokkings símann.

Kunningi minn gifti sig síðasta sumar.  Hann skildi strax því að hann greindist með æxli á stærð við handbolta við lungun og vildi ekki gera konuna sína að ekkju.  ég skildi ekki það viðhorf?  Svo var hann skorinn upp og æxlið fjarlægt.  Hann fór að hringja í mig í vetur eftir nokkurra ára samskiptaleysi, honum fannst alltaf gaman að drekka með mér.  Ég veit ekki hvar hann drekkur?  En hann er ekki hjá konunni sinni. 

Gömul menntaskólavinkona varð ekkja í sumar.  Þrjátíu og fimm ára.  Ég hef nokkrum sinnum hitt hana etir það.  Augun í henni eru alltaf rök og hún á það stundum til að strjúka mér um handlegginn og segja eitthvað sem hefst á: manstu?  Manstu hvað mér þótti hann ljótur fyrst þegar ég sá hann?

Memento mori.

Man erindi úr þýsku ljóði:  Til þess að lifa verður þú fyrst að læra að deyja...

Ég vildi að það færi að rigna.    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þjóðverjar hafa líka rétt ófáum hjálparhönd við að uppfylla þetta skilyrði. Í sumum tilvikum algerlega óumbeðið, hm.

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 13:46

2 Smámynd: Kreppumaður

Þjóðverjar eiga þó ekki heiðurinn einir skilið en held að ljóðlist þeirra eftir ´45 dragi dám að fortíðinni, þung og full af samviskubiti yfir því að vera enn á lífi!

Kreppumaður, 17.4.2008 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband