18.4.2008 | 17:54
Eftirlegukind
Í gærkvöldi fór ég á Ölstofuna (eftir Gróttu) sem var svo stöppuð að fyrst hélt ég að verið væri að gefa ókeypis bjór en ekki selja hann síþyrstum. Og ég þekkti næstum annan hvern kjaft. Mikið af mínum bestu vinum voru þarna og eitthvað af þessum slöttólfum sem ég drekk stundum með í hallæri. Og gamall hippi með skökk gleraugu sem sagði stúlkunni sem ég var með að hún þyrfti andlitslyftingu. Sjálfur var hann ennþá undir áhrifum frá sýrunni sem hann droppaði haustið ´72 og fór að lokum að babla á ensku og horfa á ljósin. Alveg gjörsamlega búinn að gleyma því að hann ætlaði að heilla stúlkuna með orðfimi sinni og sögum af því þegar hann fékk að eiga hassmulninginn sem Led Zepelin hafði ekki lyst á að reykja. Það kvöld reisti hann sjálfum sér minnisvarða sem er stærri en sá sem stendur á Traflagartorgi. Þessi sami gaur hefur þann leiðinlega sið að hengja sig alltaf á mig þegar hann sér mig á þessari búllu. Og vill ræða við mig um heimspeki. Eins og hún er nú leiðinleg eftir að hafa kennt hana í ár. Nema Kierkegaard, mér hefur alltaf þótt vænt um hann en flestir svona snillingar sem eru útúrflippaðir á börunum hafa ekki þolinmæði í að hlusta á mig útskýra hans verk. Enda er fólk ekki komið á bari til þess að hlusta. Frekar að tala og góna á hitt kynið. Eða bara vera skrítinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.