29.4.2008 | 16:42
Og ástandið er ekki að batna
Á leiðinni heim hugsaði ég með mér hvað ég er heppinn að vera ekki með hárkollu. Þá væri ég eflaust núna á Laugaveginum að skríða undir bíla eða klifrandi í trjám í veikri von um að endurheimta það sem halda ætti hita á höfðinu á mér. Reyndar er ég ekki týpa sem væri með kollu límda á hausinn ef ég væri sköllóttur. En það er gaman að ímynda sér það í þessu hvassviðri.
Kom við í háskólanum sem eyðilagði mig og fékk frábærann feril minn sem námsmanns vottaðan á öllum þeim tungumálum sem ég mundi eftir að séu töluð og skrifuð í þessum heimi. Fór svo og skutlaði inn óvandaðri umsókn um rándýrt framhaldsnám sem ég hef svo sem engan áhuga á því að læra en sæki um bara venjuleg illgirni og þeirri von að taka pláss frá öðrum. Svona mannvonska ræður oft um það að ég sæki um hitt og þetta í þessum heimi. Reyndar er eitt nám í boði hérlendis sem ég er spenntur fyrir en það er kennt á Bifröst sem er norðan við hinn byggilega heim og því ekki fræðilegt val. En ég er að hugsa um að hafa þann möguleika í haust að dunda mér við eitthvað nám, fari svo að ég finni mér ekki neina spennandi vinnu við hæfi.
Annars er lítið héðan að frétta. Vinnudagurinn í gær var svo erfiður að hann lagði mig eins og ungabarn beint í rúmið að honum loknum og ég er ennþá drullu kvefaður svo ég fer ekki að horfa á seinni leik man.utd - Barcelona í kvöld. Og er ennþá eitthvað svo langt frá mínu besta að mér dettur ekki einu sinni neitt í hug til þess að ergja samborgara mína með. Mér leiðist að vera þessi skuggi af sjálfu mér. Hann er svo leiðinlegur og fer svo mikið í taugarnar á mér að mig langar til þess að öskra - ARRRRGGGG!
Heimurinn er að verða eins og lag sem William Shatner syngur. Gjörsamlega vonlaust, falskt og á góðri leið með að gera mig geðveikan!
Athugasemdir
Ohhh vondur við Bill gamla ;)
Margrét Þórðardóttir (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 00:15
Hann á það fyllilega skilið. Nema sem kómedíuleikari. Einstakur þar.
Kreppumaður, 30.4.2008 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.