2.5.2008 | 11:54
Breytingar, breytingar...
Það er kominn föstudagur en samt er ennþá allt í verkfalli hérna uppi (bendir á höfuð sitt) og ég skil ekki hvað ég á að gera? Er búinn að fletta í velskrifuðum meistaraverkum, hlusta á tónlist, bjóða áfengi sem mútur en er jafn heimskur og andlaus og undanfarana daga. Er allt í einu skíthræddur um að ég sé kominn á eitthvað breytingarskeið, að aldurinn hafi loksins rænt mig allri skapandi hugsun, að ég muni aldrei láta mér detta neitt annað í hug en pulsur til þess að hafa í matinn. Oj.
Kannski ætti ég bara að taka þessari heimsku fagnandi? Að halda upp á daginn í dag sem þann fyrsta í mjög svo hamingjusömu lífi þar sem efi og tilvistarspeki er fyrir bý og allt mun snúast um það eitt að koma sem mestu kjöti og öli í minn mjóslegna maga? Að ég muni héðan í frá verða ánægður með það sem lífið rétti að mér. Hætti að gera kröfur um eitthvað sem heitir andlegsæla og fókusi bara á það að hafa skrokkinn sæmilega mettan og sælan. Sé fyrir mér að dvd og bókasafnið mitt breytist. Allt sem er þungt og tormelt verði selt í Kolaportinu eða skipt á því og heildarverkum Farellybræðra. Jafnvel innbundið í leður.
Þessi dagur færir mig hægt og rólega nær andlegri glötun en líkamlegri vellíðan. Núna er ég að hugsa um stóra pizzu með þremur kjöttegundum.
Athugasemdir
Mæli með pizzu með pepperoni, lauk og grænum piparkornum...og slatta af Túlla með.
Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 15:52
Gaman að eiga vitrænar samræður við þig Guðmundur... Hér er það sko gullrætur og hvítvín í kvöldmat.
Kreppumaður, 2.5.2008 kl. 17:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.