Verkfalli lokið

Datt aftur í sama gamla farið á leiðinni heim þegar ég sá mann með íbogna og mjög svo langa pípu standa á götuhorni með hendur fyrir aftan bak, rugga sér og reykja.  Og mér varð samstundis hugsað til pípukaflans í Íslenskum aðli og hversu hégómlegur Þórbergur hafi verið að halda að langar og bognar pípur gerðu mann gáfulegan.  Svo ég hló, gekk fram hjá pípureykingarmanninum sem hugsanlega hélt að yfir hann færðist 19. aldar menntamannsbragur með svona fallegri pípu og glotti að honum eins og ótíndur götustrákur.  Og allt í einu var ég hættur að hugsa um hamborgara og pizzur og farinn að hugsa um texta og gamlar bækur og sérvitra karla og byrjaði að labba hraðar í stað þess að dóla mér eins og maður sem ekki á neitt erindi á neinn stað.  Þess í stað gekk ég hratt og rakst utan í fólk því að ég hafði munað það að ég þyrfti ekki á neinu lifandi fólki að halda, bara því sem eitt sinn hafði verið og skrifað, og heilum helling af brennivíni til þess að létta mér lundina um helgina.  Því að ég ætla að bjóða heilan velkominn til starfa aftur með því að fremja á honum hryðjuverk í formi áfengisdauðra heilasella og sökkva mér niður í bækur og skrifa og tónlist og gefa skít í þetta fólk þarna úti.  Ég þarf ekki á því að halda og það sérstaklega ekki á mér!

Því verður hinu fróma plani um að draga stúlku út í drykkju, stungið undir stól og ekki dregið þaðan aftur á meðan ég get haft ofan af fyrir mér á annan hátt.  Því að síðustu dagar hafa verið langir og andlausir og mér fundist eins og það væri ekkert lengur neitt til þess að lifa fyrir nema CSI og annar álíka hroði sem ég hef verið að horfa á.  Og ég ætla að gera samkomulag við hausinn á mér.  Ef hann hættir svona verkföllum skal ég ekki misþyrma honum með neinu nema áfengi og bókum - aldrei oftar sjónvarpsefni og auglýsingabæklingar frá Bónus með gulnuðu svínaketi á forsíðu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

yessss.....kominn tími til!

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 18:57

2 Smámynd: Kreppumaður

Það hefði verið skelfilegt ef ég hefði þurft að láta skipta um heila í mér...

Kreppumaður, 2.5.2008 kl. 19:06

3 identicon

Búinn?

Johnny (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband