25.6.2008 | 20:34
Nöfnin á fjöllunum
Fyrstu tvo dagana hérna gekk ég skriður, hóla og ómerkilegar hæðir til þess að koma mér í form. Óð eina á og skokkaði upp á minnkandi skriðjökul. Allan tíman hafði ég varla augun af fjöllunum, sérstaklega ekki hæsta tindi landsins. Og eitt kvöldið er ég sat yfir víni og korti af nágrenninu og reyndi að búa til gönguplan og leggja á minnin nöfnin á fjöllunum, laust þeirri hugmynd niður hjá mér að allir þessir tindar sem ég ætla að klífa væru tákn um ákveðin uppgjör. Og ég fór út í sumarnóttina og stóð í döggvotu grasinu í blanka logni og horfði á fjöllin og jökulinn og ég endur skýrði tindana eftir konunum í lífi mínu. Og því meiri tilfinningar sem ég bara eða hafði borið til stúlkunnar, því tilkomumeira og tignarlegra var fjallið sem ég gaf nafn hennar. Og ég ákvað að á leiðinni upp á hvert og eitt þessara fjalla mundi ég hugsa um samband mitt og stúlkunnar og skála svo fyrir liðnum gleðistundum á toppnum og vona að á leiðinni niður mundi ég skilja allra minningar um hana eftir.
Því gekk ég í glaða sólskini upp á frekar ómerkilegt fjall: greiðfær leið á milli svartra hamra og ég var orðinn kenndur af koníaki þegar ég stóð á tindinum. Útsýnið fallegt yfir jökulinn og sandana og fjöllin og græn tún og yfir mér þessi blái himinn...
Og ég hugsaði um stúlkuna sem ég hafði nefnt fjallið eftir og mundi að hún hafði hent í mig súpuskál eina febrúarnótt fyrir svo löngu og örið á enni mínu eftir skurðinn sem ég hlaut, verið lengi að dofna. Ég mundi ekki hvort ég átti þessa skál skilið í höfuðið á mér og stóð eiginlega á sama. Settist þess í stað niður og skeit.
Skeindi mér svo með blaðsíðum úr bók eftir kvenkyns rithöfund sem ég hef aldrei þolað, áður en ég gekk blístrandi heim.
Síðan hef ég gengið á þrjá tinda eða fjöll. Dáðst að fegurð heimsins. Skálað fyrir því sem aldrei kemur aftur. Fundið hvað ég vex að þreki við hverja heimför, fundið hvað ég slít hægt og hægt á tengslin við hið liðna: að með þessu brölti er ég ekki bara að kveðja allar þessar konur, heldur líka að kveðja mitt gamla líf.
Því að ég hef ákveðið að snúa ekki aftur til Reykjavíkur fyrr en ég sé orðinn annar og öðru vísi maður. Hvernig maður veit ég ekki og þori ekki að hugsa svo langt eða um svo miklar breytingar. En ég veit að ég þarf að sleppa hönd af því hlutverki sem ég held dauða haldi í. Því hlutverki sem ég hef verið alltof lengi að leika.
Enn eru 23 tindar eftir. Enn heyri ég engin hljóð í nóttunni nema tíst fugla. Enn eru dagarnir langir. Enn...
Enn er hálft glas af víni eftir.
Athugasemdir
Gvöð hvað ég er fegin að vera vinkona þín en ekki eitthvað fjall sem þú klifrar og skítur á! :)
Heiða B. Heiðars, 25.6.2008 kl. 23:01
Þetta hæfir þér vel. Vertu bara eins lengi meðal fjalla og þú getur - já eða komdu heim og búðu til fleiri brostnar minningar sem þú getur seinna skitið á.
Njóttu bara hvors sem er - það skiptir víst mestu.
Gunnhildur Ólafsdóttir, 25.6.2008 kl. 23:33
Voðalega eruð þið eitthvað uppteknar af því að ég gekk örla minna uppi á fjöllum? Hefði verið betra að rígfullorðinn maðurinn hefði komið heim með það í buxunum?
Kreppumaður, 25.6.2008 kl. 23:54
það er nú bara af því að þú skrifaðir skíta með Y :)
En voðalega hljómar Gunnhildur eitthvað bitur! Kannski þú skítir á fjall henni til heiðurs
Andrea, 26.6.2008 kl. 14:28
Þú mátt sko skíta á öll fjöll í heiminum mín vegna. Fannst þetta bara fyndið. En það komst greinilega ekki til skila - amk ekki hjá henni Andreu blessaðri..
Haltu áfram að klífa - og passaðu nú að detta ekki ofan í einhverja sprungu!
Gunnhildur Ólafsdóttir, 26.6.2008 kl. 16:53
Ég held áfram og klífa og eflaust líka skíta þótt að það hafi ekki verið tilgangurinn að skíta á fjöll, svo illa er mér ekki við neina stúlku.
Andrea: ég ætti ekki að blogga þegar ég er fullur, missi tilfinningu fyrir máli og löppum... Og eiginlega missi ég bara tilfinningu fyrir öllu, líka y og i og hvað er viðeigandi í bloggfærslum.
Kreppumaður, 26.6.2008 kl. 20:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.