Refur, kokkur og gæði heimsins

Í morgunn mætti ég ref sem horfði á mig óhræddur og jafnvel með fyrirlitningarsvip og skaust svo út í ánna og synti yfir.  Ég vissi ekki að refir kynnu að synda og ekki heldur kettir fyrr en ég eignaðist einn sem kunni vel við sig í baðkarinu.  Sá köttur var skýrður eftir gömlum klæðskiptingi og ég held að sú nafngift hafi ekki valdið læðunni teljandi andlegum skaða.
Annars gekk ég ekki á svo mikið sem hól í dag.  Ranglaði þess í stað með fram ánni og niður í fjöru.  Þar sat ég á stein og lét öldurnar dáleiða mig og missti skin á tíma og stað og það var ekki fyrr en það fór örlítið að falla úr lofti að ég stóð á fætur og gekk til baka.
 
Þegar ég gekk framhjá eldhúsi hótelsins heyrði ég að Litháenski kokkurinn kallaði á mig.  Þegar ég gekk til hans stóð hann á fætur (hann hafði setið á bjórkút og reykt) og sagði bæði fornafn mitt og föðurnafn skýrt og greinilega  (Fyrir nokkrum dögum bað hann mig um að skrifa það á blað fyrir sér, útlendingunum gengur frekar illa að bera fram Þ.) og stóð svo brosandi stoltur fyrir framan mig eins og þetta væri helsta afrek hans á fjörutíu og fimm ára langri ævi.  Ég hrósaði honum og spurði hvort hann gæti sag: helvítis útlendingur!  Hann gat það og til þess að fagna þessum merka áfanga hvarf hann inn í eldhús en kom vonbráðar aftur með tvö vatnsglös hálffull af vodka.  Við skáluðum og hann sagði nafn mitt og drakk úr glasinu í einum teig.  Ég fékk mér alltof stórann sopa og barðist við að halda honum niðri.  Hann hló og endurtók nafn mitt einu sinni enn og sagði að mér líkaði betur við koníak.  Svo spurði hann mig hvort ég hefði gengið á fjall.  Ég sagði honum að ég hefði farið til þess að horfa á sjóinn.  Hann sagðist vera búinn að vera þarna í marga mánuði og það eina sem hann hefði farið væri í næstu byggðalög til þess að sækja áfengi.  Hefði ekki svo mikið sem gengið upp á næsta hól.  Ég lofaði honum því að ef hann vildi gæti ég tekið hann í barnagönguferð að næsta skriðjökli.  Hann varð svo uppveðraður af því að hann snaraðist inn í eldhús og sótti vodkaflöskuna.  Hún var nærri tóm.  Hann sló henni við glas mitt og endurtók enn einu sinni nafn mitt og sagði að ég væri besti vinur hans á þessum stað.  Svo settumst við niður á sitthvorn bjórkútinn og reyktum og horfðum í átt til hafs sem óðum var að hverfa í mistur og þögðum.
 
Ég borðaði magra bleikju í kvöldmat.  Úti var dalalæða og ég heyrði húsvörðinn segja við einhvern að á morgunn mundi rigna.  Mér stóð á sama um þær fréttir, ég er með hlífðarföt og get notað þau ef ekki er hægt að ganga á skyrtunni eða í lopapeysu.  Ef ég ætla að ná að ganga á öll fjöllin þá má ég eiginlega ekki missa úr dag.  Stelpan sem þjónaði mér er há og grönn og dökkhærð og einhverntíman hefði ég haft smekk fyrir henni og eflaust eytt tíma mínum í að reyna að komast upp á hana en ekki að klöngrast skriður og klífa hamrabelti (sem mér er þó illa við, hef oftar en ekki farið flatt á svoleiðis klungri eða misst hjartað í buxurnar) til þess eins að leggja að baki fjall og minningar.  Ég er samt sáttur við það að vera að breytast.  Og ég er ekki bara að breytast í þessu gagnlausa höfði mínu, heldur er líkaminn öðruvísi en fyrir nokkrum vikum.  Vöðvarnir á löppunum harðir eins og grjót og maginn, helvítis maginn sem vildi stundum virðast of mikill, hann er löngu horfinn og ekki mikill söknuður í honum.  Ég hef ekki verið jafn grannur í tíu ár.  Og þegar ég horfi í spegil þá eru baugar vetrarins löngu horfnir og maðurinn sem brosir á móti mér er útitekinn og ekki þetta eilífðar regnský yfir höfðinu á honum...
 
Og núna er ég hérna, á herberginu mínu sem minnir meira á fangaklefa á Hrauninu en hótelherbergi en mér er sama.  Þægindi skipta mig ekki svo miklu máli núna og það að hafa skrifborð og fataskáp finnst mér nægur lúxus.  Veraldleg gæði skipta mig núna engu, bara fjöll og útivera og sú staðreynd að þegar ég held héðan þá verður það á vit einhvers stórfenglegar en slímsetna á börunum í hundraðogeinum...  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skál fyrir þér fjallagarpur - við eigum örugglega eftir að sakna þín í 101um.. en þetta er alveg pottþétt þess virði að svissa yfir   held ég.....

101mær (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 00:17

2 Smámynd: Kreppumaður

Ég held að 101 þurfi að hvíla sér á mér eins og ég á honum og ef einhver saknar mín þá minni ég á göngudeild Landspítalans fyrir þá sem eru á barmi sjálfseyðingar!

Kreppumaður, 26.6.2008 kl. 00:25

3 Smámynd: Gunnhildur Ólafsdóttir

Hvað meinaru - hvergi betra að dvelja en á börunum í miðborg Reykjavíkur! Trúi bara ekki að þú viljir frekar eyða sumrinu út í sveit...(eða þannig). Trúi því vel.

Ég býst við að ég kíki við á göngudeildinni við tækifæri.. 

Gunnhildur Ólafsdóttir, 26.6.2008 kl. 16:51

4 Smámynd: Kreppumaður

Mundi ekki skipta á einum labbitúr eða drukknum Litháa þótt mér væri boðin Ölstofan eða Kaffibarinn til eigna.

Kíkir við Gunnhildur, gengurðu ekki þar framhjá alla daga á leið til vinnu?

Kreppumaður, 26.6.2008 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband