Næturgestur

Um hálf eitt var bankað á dyrnar hjá mér og fyrir framan mig stóð Litháenski kokkurinn, ennþá í kokkagallanum með vodkaflösku í svuntunni og sagði: Icelandic mafia you need a drink!  Og tróð sér framhjá mér og settist á rúmið mitt (ofan á útprentuð blöð) og saup af vodkaflöskunni.  Ég settist í skrifborðsstólinn og fékk mér sopa af rauðvíni sem ég hafði verið að drekka.  Ég spurði hvað honum væri á höndum, hann svaraði engu en tók bara annan sopa af vodkaflöskunni.  Mér sýndist hún næstum tóm.
Svo sátum við í nokkra stund í þögn, ég að horfa á hann og hann að horfa í gaupnir sér á milli þess sem hann tók sopa af vodka.  Fyrir utan gluggann minn höfðu allir fuglar þagnað og trén stóðu kyrr í næturrökkrinu og græn blöð þeirra virtust vera gul eins og að hausti, í skini ljósanna frá hótelinu.
Loks leit hann upp og horfði á mig, rétti mér flöskuna og spurði mig hvort að ég væri ekki vinur sinn? 
Ég taldi mig vera það.
Þá tók hann upp snjáð veski og dró fram mynd af dökkhærðri konu á óræðum aldri, augun brún og sítt hárið slegið yfir ljósan kjól.  Hann sagði að þetta væri eiginkona sín sem svaraði ekki í símann þegar hann hringdi.  Ég sagði að hún væri fögur og ég sæi það á henni að hún væri skapstór.  Hann drakk meira.  Svo sýndi hann mér myndir af börnunum sínum og spurði mig hvort ég ætti börn?  Ég sagðist eiga stálpaðan son.  Svo þögðum við og létum dreggjarnar í vodkaflöskunni ganga á milli okkar.  Þegar hún var tæmd stóð hann á fætur og sagði að hann mundi drepa fyrir fjölskyldu sína svo gekk hann út án þess að kveðja.
Og núna sit ég hér að reyna að tæma rauðvínsflöskuna og allt er svo kyrrt og hljótt.  Meira að segja fuglarnir eru annað hvort dauðir eða farnir að sofa.  Og ég er að hugsa um þennan nýja vinn minn og sorgir hans, ég er að hugsa um þennan nýja vin minn og þær sorgir sem hann á og deilir með öðrum, ég er að hugsa um þennan nýja vin minn sem ég þekki ekki neitt og segir svo fátt og veit ekki hvert hann sé að fara...
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergur Thorberg

Hvað stóð á útprentuðu blöðunum?

Bergur Thorberg, 26.6.2008 kl. 08:05

2 identicon

Hvernig spyrðu, Bergur? Nú eru áreiðanlega bremsuför á þeim. 

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 10:10

3 identicon

Það er gott að vera farin að fá frá þér færslur aftur, það er gott að lesa þig.

Ragga (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 11:38

4 Smámynd: Gunnhildur Ólafsdóttir

Lýst vel á það að þú sért búin að eignast góða vini þarna í afdölunum. Gott fyrir þig að vita af þeim ef þú kemst ekki til byggða vegna ofdrykkju.. ;)

Gunnhildur Ólafsdóttir, 26.6.2008 kl. 16:59

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hmm,, áttirðu engar myndir til að sýna honum á móti?

Svanur Gísli Þorkelsson, 26.6.2008 kl. 19:03

6 Smámynd: Kreppumaður

Bergur:  Það var verið að undirbúa aðra ferð og blöð nauðsyn til þess.

Guðmundur:  Ekki svo langt frá sannleikanum.

Ragga: þakka hólið, gott að einhverjum líður vel yfir strákapörum mínum.

Gunnhildur:  Hann er orðinn ,,besti" vinur minn og engin hætt að ég komi til byggða að angra þig eða annað kvenfólk þegar ég hef þennan magnaða félagsskap!

Svanur:  Ég er reyndar með myndir af syni mínum í tölvunni og eflaust af einni eða tveimur konum en sá ekki tilganginn með því að flagga lífi mínu framan í ofdrykkjusjúkling.

Kreppumaður, 26.6.2008 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband