26.6.2008 | 20:49
Uppáhalds kjóllinn hennar
Þar sem ég sat á fjallsbrún og dinglaði löppunum utan í hamrabeltið og reykti sígarettu, svona til þess að spilla hreina loftinu, vorkenndi ég sjálfum mér vegna þess að vitavarsla er hverfandi starfsstétt. Ég sá það í hillingum að búa einn í vita sem mundi lýsa upp hafið, sama hvernig viðraði og ég gæti kúldrast þar yfir bókum á milli gönguferða. Ef það væri netsamband og einhver mundi skutla til mín reglulega smá mat, tóbaki og einhverju örlítið sterkara en pilsner, held ég að þar yrði ég best geymdur. Gjörsamlega ófær um að gera nokkuð að mér.
Ég var ennþá upptekinn af þessari hugmynd, meira að segja farinn að ímynda mér jólahald í vitavarðahúsinu, með stórhríð og brim beljandi á gluggum, þegar ég næstum gekk á sænsku herbergisþernuna á hlaðinu fyrir utan hótelið. Hún brosti til mín og roðnaði og spurði hvort ég hefði verið að klífa fjöll. Ég sagði henni að ég hefði lokið við fjall númer fjögur. Án teljandi vandræða, bætti ég svo við en hélt fyrir sjálfum mér þeim minningum sem ferðin upp hafði kveikt. Ég var ekki alveg búinn að gleyma tryllingnum á tíundaáratugnum, sporum í snjó sem lágu heim að litlu húsi og manni í rúmi sem átti ekki að vera þar. Hún spurði mig hvort ég vissi hvað Litháenski kokkurinn kallaði mig og hélt áfram: Icelandic mafia Ég sagðist vita að hann kallaði mig það en spurði hvort hún vissi af hverju? Hún sagði að hann segði öllum að ég væri viðriðinn mafíuna og væri að fela mig hérna og það mundi ekki koma honum á óvart ef ég fyndist einn morguninn skorinn á háls eða fyndist alls ekki. Hér væru margar dimmar jöklasprungur. Ég hló svo mikið að allir vitar sem lýsa skipum og ótrúar kærustur voru löngu gleymdar og annað hvort varð hún svo taugaveikluð við viðbrögð mín eða hlátur minn svo smitandi að hún byrjaði að skelli hlæja og hló svo mikið að hún þurfti að styðja sig við mig.
Þegar þessi geðveiki var runninn af okkur spurði hún hvort að það væri búið að bjóða mér í partýið sem halda á annað kvöld. Ég sagði að það hefði eitthvað verið minnst á það kvöldið áður við mig. Hún spurði hvort ég ætlaði ekki að koma. Ég sagðist mundi mæta, ég hefði eitt og annað að segja við drykkfeldinn kokk. Hún horfði á mig skamma stund og sagðist svo ætla að koma í uppáhalds kjólnum sínum í þessa fyrirhuguðu veislu og svo snéri hún sér snöggt við og hljóp í burtu og sló hæl við þjó. Ég stóð og horfði á eftir henni og fannst vitavarðarstarfið aftur vera orðið freistandi.
Athugasemdir
Andskotinn! Svona byrjar þetta alltaf! Ég myndi nú bara skippa þessu partýi og fara í aðra fjallgöngu. Satana pergele! Hví skyldi maður leita út í kyrrðina úti á landi? Til þess að skreppa í nokkur partý?
Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 08:50
Sammála. Hef farið í of mörg partý en á alltof fá fjöll!
Kreppumaður, 27.6.2008 kl. 20:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.