Kæfast í sandi

Vinur minn og frændi sem lést um aldur fram og á dró mig út eina dimma desembernótt, þá á hátindi geðveiki sinnar, til þess að sýna mér hinn helga grail sem reyndist vera tóm flaska af pilsner, orti: 

Verð ég lygn/eins og klakaflóð úr Vatnajökli/og bráðna niður í sandinn

Eins og skipbrotsmennirnir á hinstu stund ævi sinnar

Kæfast þeir í sandi/fæðast í vatni/vígjast logandi krossi.

Ég las uppúr bókinni sem þetta ljóð er í, standandi á hæð með svarta sanda og gruggugt jökulfljót svo langt sem augað eygði fyrir framan mig, svo hávært þar sem það féll hjá að ekki einu sinni fuglarnir sem svifu yfir höfði mínu námu orð mín og ég lagði frá mér bókina og vissi að fegurstu ljóðin fæðast í því vatni sem eru líkamar okkar svo þungir að þeir sökkva og kæfast í sandi.

Og núna sit ég hér og hugsa um grænleitarflöskur sem hefðu átt að varðveitast sem helgigripir og allt það vatn sem hefur umlukt mig og umvafið og ég minnist þess að hafa sem barn verið hræddur við vatn og sérstaklega hafið.

Og ég velti fyrir mér geðveikinni sem knýr suma til þess að fremja voðaverk aðra til þess að sveipa líf sitt áru einhverskonar snilligáfu og dulúðar.  Mér sýnist ég vera að finna þess konar mannlíf hérna undir þessum fjöllum.  Hér eru allir eitthvað furðulegir, allir nánast á barmi geðveiki þótt að enginn sé ennþá búinn að gera mig að hestasveini til þess að halda með sér út í húmið í leit að einhverjum hlutum sem aldrei voru til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband