27.6.2008 | 03:17
Fossar og fossar
Ég var rétt í þessu að koma heim úr miðnætur göngu minni, örlítið reikull í spori en búinn að standa hjá fossi með höfuðið uppi í skýjabakka og með stressaða rollu og afkvæmi hennar að félagsskap. Rollan hegðaði sér reyndar eins og einhverskonar loðið og ferfætt afbrigði af Woody Allen: taugaveikluð og hafði undarlegan áhuga á svæði því á afkvæmum sínum þar sem kynfæri og endaþarmur á svona skepnum kann að leynast og minnti mig á það að Allen er nú giftur dóttur sinni. Á leiðinni heim gekk ég fram hjá grjóthnullungum sem í fjarlægð litu út eins og þrír menn í biðröð að komast inn á bar, það drukknir að þeir þurftu að styðja sig við hvorn annan. Ég settist aðeins niður á stað sem er orðinn mér nokkuð kær: græn tjörn ofan í skál, nokkurskonar minni útgáfa af Kerinu, nema að allt er svart og grænt og rennur einhvernvegin saman og ég veit að þarna fær ekkert líf þrifist.
Og nú er ég kominn hingað aftur á herbergið mitt og á erfitt með að sofna (eins og alltaf) og vorkenni þeim sem þurfa að láta gervifossa, sama hversu fallegir þeir eru, vera náttúran sín. Jafnvel þótt að náttúra stórborga geti verið falleg með sínum auglýsingaskiltum, brjálaða mannlífi og dimmu og röku og munúðarfullu nóttum, þá finn ég það svo vel núna, hversu heppinn ég var að láta öldurnar skola mér hingað en ekki í Kreuzberg hverfið eða hvert svo sem í fjandanum ég ætlaði að álpast?
![]() |
Fossar falla í Austurá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.