27.6.2008 | 20:22
Skálað við sólina
Ef það verður ekki fellibylur eða jarðskjálftahrina eða ég of timbraður eftir partýið í kvöld, ætla ég í lengstu fjallgönguna til þessa á morgunn. Magnað fjall sem hefst á bröttum skriðum (þar sem ég ætla upp) svo taka við hamraveggir (en það er leið upp gil á milli þeirra) og svo þessar dæmigerðu grænbrúnu brekkur sem einkenna svo mörg Íslensk fjöll. Aftur hamrar, stutt brekka og svo tindur. Ég ætla að reyna að muna að taka myndir en ég hef ekki verið nógu duglegur við það (nema af fólki og lafhræddum rollum).
Annars var eitt af því fyrsta sem ég las augun í hérna á hótelinu: heildarsafn af leikritum Ibsens í þýðingu Einars Braga. Ég hef alltaf haft miklar mætur á Ibsen og kann betur að meta hann hérna á heimsenda. Finnst stundum að þessi fjöll séu Norsk, hugsanlega ólöglegir innflytjendur, alla veganna fjarskyldir frændur...
Talandi um fjarskylda frændur og aðra ættingja: sonur minn hringdi í dag og eftir spjall um daginn og veginn sagði hann mér að það væri alltaf einhver stelpa að hringja í hann og hann vildi ekki tala við hana því að hún væri leiðinleg og ekkert svo sæt: hvað á ég að gera pabbi?
Ég sagði honum að alvöru karlmenn mundu segja stúlkunni varfærnislega að enginn áhugi væri fyrir hendi en að ég mundi slökkva á símanum í tvo, þrjá daga og vona að hún mundi hætta að hringja. Sonurinn andvarpaði: hvernig datt mér í hug að spyrja þig? Ég gat ekki svarað honum því. En benti honum þess í stað á að tékka á nýju (og einu) plötunni með Peter and Wolf. Drengurinn sagðist vera nægilega þunglyndur í bili og bað mig um að hætt að kvelja sig, hvort sem það væri með vondum ráðum eða tónlist. Við lögðum á.
Og nú ætla ég að fara að halda út, vitandi að flott tónlist, Ibsen og slatti af jöklum er það eina sem ég þarf til þess að vera hamingjusamur. Ég ætla að skála við sólina!
Athugasemdir
Var að hugsa um að skreppa á Sægreifann og fá mér kreppugraut en lenti á blogginu í staðinn. Þú verður að passa þig á þunna loftinu þarna á fjöllum, þú gætir orðið ansi þunnur í fyrramálið.
Bergur Thorberg, 27.6.2008 kl. 20:55
Gaman að sjá skrif þín aftur gamli, maður óttaðist um tíma að blogheimar hefðu misst þann eina sem vert var að lesa og fylgjast með.
zazou (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 11:55
Ekki laust við að ég sé farin að öfunda þig pínu af Heimsenda.
Ragga (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 12:28
Bergur: Mundi sleppa kreppugraut, getur ekki bragðast vel. En hér er maður víst aldrei þunnur.
Zazou: Þakka hólið, bloggheimar misstu mig næstum fyrir fullt og allt aðfaranótt laugardags, vona að ég geti sett það á blað fljótlega.
Ragga: Nú er bara að klára dvölina hér og þessi fjöll og finna svo næsta enda. Hugmynd farin að fæðast.
Kreppumaður, 30.6.2008 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.